Bæjarráð Akureyrar hefur samþykkt að taka þátt í stofnkostnaði við dróna verkefni Lögreglunnar á Norðurlandi eystra.
Verkefnið felur í sér kaup, uppsetningu og uppbyggingu á fjarstýrðum löggæsludrónum. Óskað er eftir fjárframlagi sveitarfélagsins sem nemur annars vegar þátttöku í stofnkostnaði að fjárhæð 2,5 milljónir króna og hins vegar vegna kostnaðar sem getur fallið til ef koma þarf rafmagni og netsambandi að staðsetningu dokkanna ef staðarval er utan fasteigna sem lögreglan hefur umráð yfir.
Leitað var til 6 sveitarfélaga, Akureyrarbæjar, Dalvíkurbyggðar, Fjallabyggðar, Langanesbyggðar, Norðurþings og Þingeyjarsveitar. Byggðaráð Norðurþings hefur hafnað erindinu enda á framfæri ríkisins að sinna löggæslu eins og segir í bókun.
Um er að ræða tilraunaverkefni embættis Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra um að taka upp fjarstýrða flugdróna til að auka viðbragð lögreglu þar sem löggæsla er ekki mönnuð allan sólarhringinn.
Markmiðið er að auka viðbragð lögreglu þannig að hún geti fyrr lagt mat á ástand þegar verða útköll og þannig aukið öryggi almennings og lögreglumanna.