Andrea Sigrún Hjálmsdóttir bæjarfulltrúi V-lista lagði á fundi bæjarráðs Akureyrar í gær fram bókun, þar sem lagt er til að bæjaryfirvöld setji í forgang snjómokstur fyrir gangandi vegfarendur. Þá eru bæjaryfirvöld einnig hvött til þess að gera þjónustustig og forgangsröðun í snjómokstri aðgengilega bæjarbúum á vefsíðu bæjarins.
Á fundinum lögðu bæjarfulltrúar L-listans fram bókun, þar bæjarbúar eru hvattir til að kynna sér reglur bæjarins um snjómokstur og hálkuvarnir.
Í gildandi reglum bæjarins segir meðal annas:
Snjómokstur gönguleiða: Miðað er við að moka fyrst þær leiðir sem liggja að skólum, leikskólum og helstu stofnunum bæjarins.
Snjómokstur og hálkuvarnir gatna: Þær götur sem njóta forgangs í snjómokstri eru stofnbrautir, helstu tengibrautir m.a. að neyðarþjónustu s.s. sjúkrahúsi, lögreglu, slökkviliði, strætisvagnaleiðum og fjölförnum safngötum.
Á heimasíðunni er kort af bænum þar sem fólk getur séð forgangsröðun snjómoksturs á akstursleiðum.
Verið er að útbúa samsvarandi kort fyrir gönguleiðir og verður það sett inn á heimasíðuna þegar það er tilbúið.
Bæjarráð vísaði bókun Andreu til framkvæmdadeildar.