Margir biðu spenntir eftir því að Alþingi tæki til starfa eftir páskafrí þingmanna og ég var þeirra á meðal. Á dagskrá þingsins voru hugmyndir um að hækka talsvert skatta sem lagðir eru á sjávarútveginn umfram aðra atvinnuvegi. Mér fannst þetta áhugaverð hugmynd og hlakkaði til að hlusta á upplýsandi umræðu um auðlindir og auðlindanýtingu. Ég kom mér því notalega fyrir við sjónvarpsskjáinn áður en Silfrið byrjaði í sjónvarpi Ríkisútvarpsins fyrsta mánudag eftir frí þingmanna.
Samtal þingmannanna varð hins vegar ekki annað en leiðinlegt þvarg um sjónvarpsauglýsingar sem komu veiðigjöldum ekkert við. Þó mátti af umræðunum ráða að dómsmálaráðherra hefði veitt því athygli að einhver sjávarútvegsfyrirtæki væru rekin með hagnaði, slíkt væri andstætt þjóðarhag og að brýnasta verkefni ríkissjórnarinnar væri að taka á því. Þingmaður Samfylkingarinnar talaði síðan um auðlindir sem væru í þjóðareigu. Það var forvitnilegt. Hvað eiga menn við þegar menn tala um auðlindir og hvað eiga menn við þegar þeir tala um þjóðareign.
Náttúran og maðurinn
Maðurinn er hluti af samhangandi vistkerfi jarðarinnar, þar sem tilvera hverrar lífveru er háð tilveru annarra lífvera og þeirra fyrirbæra sem veröldin hefur að geyma. Þegar fyrstu landnámsmennirnir komu til Íslands vöru ár fullar af fiski og sjórinn umhverfis landið. Landið var skógi vaxið milli fjalls og fjöru og smjör draup af hverju strái. Fiskur í sjó, ám og vötnum átti sig sjálfur, vatnið féll til sjávar undir krafti þyngdaaflsins og smörið draup til moldu. Undir yfirborði jarðar var heitt vatn sem landnemar gátu notað til að baða sig í ef þeir vildu. Allt hafði þetta verið til árþúsundum saman.
Landnámsmenn slóu eign sinni á landið með bálköstum eða beljuteymingum eftir því sem við átti. Með landinu eignuðust þeir rétt til að veiða fisk í stöðu- og fallvötnum í landi sínu og netlögum undan ströndum jarða þeirra. Sjálfan fiskinn eignuðust þeir þegar þeir veiddu hann. Engum datt í hug að menn eignuðust fiskinn við það eitt að hann hann synti inn fyrir landamerki þeirra. Þeir áttu bara réttinn til að veiða hann þar og í almenningi utan netlaga þar sem allir gátu veitt.
Þrátt fyrir að menn notuðu skóginn, gróðurinn og veiðina til að draga fram lífið þá var mestur hluti náttúrunnar og þeirra tækifæra sem veröldin bauð upp á ónotaður.
Breytileg nýting vistkerfisins.
Með tímanum þróaðist samfélagið á Íslandi og á 19. öldinni bárust hingað utan úr heimi hugmyndir um þjóðir og þjóðríkið. Samhliða því komum við okkur upp ríkisvaldi til að halda utan um sameiginleg málefni þjóðarinnar.
Með vaxandi þekkingu og auknu hugviti íbúa Íslands fundu menn leiðir til að nýta ýmislegt sem áður var talið ónothæft. Þyngdaraflið var beislað og virkjað svo hægt væri að flytja orku þess og nýta hana til verðmætaaukningar. Við náðum tökum á því að sækja orku djúpt í jörðu og flytja hana til bústaða okkar til upphitunar. Og þegar fiskveiðar okkar höfðu náð þolmörkum sjálfbærrar nýtingar náðu menn að nýta hugvit og linnulausa og markvissa þekkingarleit til þess að nýta betur þann fisk sem dreginn var úr sjó. Þjóðin uppgötvaði sérstöðu náttúru landsins og fann leið til að fénýta sér vilja annarra til að upplifa hana. Listsköpun gerði gríðarleg verðmæti úr engu öðru en hugarflugi listamanna og vinnu. Þekkingarleit fræðimanna safnaði saman auðæfum í formi þekkingar sem áður hafði ekki verið til.
Af og til hafa svo komið tímabil þar sem hægt hefur verið að nota tímabundi náttúrufyrirbæri sem ella eru ónothæfar. Það á til að mynda við um brennistein. Aðrar eru ekki nýtanlegar eins og á stendur og ekki víst að við vitum um þær allar.
Hvað er auðlind?
Orðið lind er meðal annarra orða sem notað er yfir þann stað þar sem vatn rennur upp úr jörðu. Auður á hinn bóginn merkir verðmæti eða fjármuni. Það má því segja að auðlind sé það fyrirbæri sem skapar auð eða verðmæti sem áður voru ekki til.
Engin verðmæti verða til við það eitt að fiskur syndir inn í íslenska fiskveiðilögsögu. Ekki heldur þegar vatn kemur úr jörðu og fellur til sjávar. Á Íslandi var hvorki auður né verðmætasköpun áður en landnámsmenn komu hingað. Það var fyrst með tilkomu hugvits, þekkingar, áræðni og seglu íbúa landsins sem verðmætasköpunin hófst. Það er fólkið sem skapar verðmætin. Sjómenn veiða fiskinn, starfsfólk landvinnslu vinnur úr honum söluvöru sem sölumenn koma í eins hátt verð og mögulegt er. Uppsöfnuð þekking sjávarútvegsins og látlaus þekkingarleit leiðir til þess að nýting sjávaraflans verður sífellt betri og verðmætasköpun greinarinnar hefur aldrei verið meiri. Með þessu skapa þeir sem starfa í greininni verðmæti í eigin þágu og samfélagið nýtur góðs af því. Uppsprettur verðmætanna er þekking, dugnaður, áræðni og seigla þeirra sem starfa í sjávarútvegi og fórna í það tíma sínum og taka áhættu af því að verja fjármunum sínum í fjárfestingar í greininni. Sjávarútvegurinn hefur mikla þörf fyrir margvíslega þjónustu og í kringum hann spretta þjónustugreinar sem þurfa sífellt að bæta við þekkingu sína og tryggja framþróun. Þessi fyrirtæki hafa mörg hver orðið svo sterk að þau eru orðin eftirsótt langt út fyrir landsteinana. Fólkið sem starfar í þeim greinum skapar sömuleiðis verðmæti sem áður voru ekki til og nýta við það þekkingu sína, hugvit, fjármuni, tíma, dugnað og seiglu. Sömu sögu er að segja um landbúnaðinn, skapandi greinar, ferðaþjónustuna og aðrar smærri atvinnugreinar og störf. Fólkið sem starfar í þessum greinum er hin raunverulega uppspretta auðlindanna. Án þekkingar þeirra, dugnaðar, áræðni og seiglu yrðu engin verðmæti til. Stór hluti þessarra verðmæta rennur í ríkissjóð og aðra opinbera sjóði og án þeirra hefðu ríki og sveitarfélög ekki bolmagn til að standa undir þeirri opinberu þjónstu sem við viljum að standi almenningi til boða.
Þjóðin er auðlindin.
Ísland er ríkt af auðlindum. Auðlindir Íslands eru hins vegar ekki þau náttúrulegu fyrirbæri sem eru hér, hafa hér viðkomu eða eiga leið um íslenska lögsögu. Fiskurinn verður ekki þjóðareign við að synda inn í íslenska lögsögu. Ferðamaðurinn verður ekki þjóðareign við að fljúga inn í íslenska lofthelgi. Vindurinn, vatnið og geislar sólarinnar verða ekki þjóðareign þó Ísland komi fyrir í hringrás þeirra um heiminn. En ef íslenska þjóðin finnur leið til að gera verðmæti úr þessum náttúrufyrirbærum á leið þeirra um hringrás tilverunnar þá er það íslenska þjóðin sjálf sem er auðlindin.
Eiginleikar og elja einstaklinganna sem mynda samfélag okkar koma saman og mynda hina einu sönnu auðlind þjóðarinnar. Hver og einn einstaklingur er auðlind og þá auðlind á hann sjálfur. Hvorki hann sjálfur né eiginleikar hans eru eign íslenska ríkisins né heldur eru þeir þjóðareign. Samanlagðar auðlindir einstaklinganna mynda auðlind þjóðarinnar og eru eign hennar. Það á svo að vera meginviðfangsefni stjórnmálamanna að haga málum þannig að fólk hafi svigrúm til að finna og nýta hæfileika sína og um leið sterka hvata til þess. Að skapa sérhverjum einstaklingi svigrúm til að nýta tækifæri sín og athafna sig án hindrana. Þannig verða til tekjur sem styrkja samfélagið öllum til hagsbóta. Hagkerfið hámarkar afkastagetu sína og þjóðin verður aflögufærari til að leggja fé í brýn samfélagsleg verkefni. Ef við fáum þetta svigrúm til þess mun sú auðlind sem hún er afla þeirra tekna sem nauðsynlegar eru. Skattlagning skapar ekki verðmæti og getur ekki aflað tekna. Það eina sem skattlagning gerir eða að taka fjármuni af þeim sem aflaði þeirra og afhenda þá til annarra. Hún dregur úr hvata og svigrúmi til athafna.
Nýtum auðlindina betur.
Við eru auðlindin og við eigum hana. Og ef við samnýtum hana verður fátt sem getur stöðvað okkur. Ef til vill væri skynsamlegt að leggja sundrungu til hliðar og forðast að láta hvolfast ofan í endalausar deilur um náttúrufyrirbæri sem slæðast inn í íslenska lögsögu í hringrás sinni um vistkerfi jarðar. Eigum við ekki frekar að standa saman um að búa til samfélag sem byggir undir og styður viðleitni sérhvers manns til að efla og nýta eiginleika sína til að skapa verðmæti sem ella hefðu ekki orðið til og nýta til þess þær aðferðir sem best henta hverju sinni.
Staðreyndin er sú að við erum í öllum aðalatriðum sammála um það samfélag sem við viljum búa í. Við viljum hafa eins mikil frelsi til athafna og mögulegt er en á sama tíma viljum við gæta þess að enginn verði skilinn eftir. Við erum sammála um að allir eigi hafi tækifæri til að nýta hæfileika sína til fulls en þeim sem er það ekki mögulegt verði tryggð lífsgæði og mannvirðing. Mín skoðun er sú að ef við einbeitum okkur að því að vinna saman að því sem við erum sammála um, þá munum við byggja upp það traust og skilning fleyta mun okkur sjálfkrafa yfir verulegan hluta þeirra ágreiningsmála sem nú tefja fyrir okkur. Ég er þess fullviss um að við mundum öll hafa ómældan ávinning af þessu.