Hún kynnti á fundinum skýrslu stjórnar,lagabreytingar og breytingar á styrkjum úr sjúkrasjóði en Hermann Brynjarsson endurskoðandi fór yfir reikninga félagsins. Í árslok 2010 voru fullgildir félagsmenn 1.869; 737 karlar og 1.132 konur. Þar af eru 309 gjaldfrjálsir, en það eru starfandi félagsmenn 67 ára og eldri svo og lífeyrisþegar.
Fram kom í máli Úlfhildar að starfsemi félagsins hefði verið með hefðbundnum hætti á síðasta ári. „Eins og árið 2009 var árið í fyrra merkt atvinnuleysi, kaupmáttarrýrnun og óöryggi á öllum sviðum sem hefur bitnað á okkar félagsmönnum ekki síður en öðrum launþegum. Fyrri hluta ársins voru fleiri félagsmenn atvinnulausir en árið áður, fór í 130 í febrúar en í desember voru 82 félagsmenn okkar á atvinnuleysisskrá," sagði Úlfhildur.
Á árinu fékk félagið í fyrsta sinn upplýsingar um skiptingu félagsmanna milli Lífeyrissjóðs verslunarmanna og Stapa lífeyrissjóðs. „Félagatal okkar var samkeyrt við iðgjaldagreiðendur Stapa og í ljós kom að 54 % félagsmanna greiða til Stapa, en 46 % greiða til Lífeyrissjóðs verslunarmanna," sagði Úlfhildur.
Hún ræddi einnig um gang kjaraviðræðna og en viðræður eru komnar í gang að nýju eftir að þær höfðu legið niðri um tveggja vikna skeið. Fram kom að nú væri unnið að því að gera
þriggja ára kjarasamning og miðast viðræður m.a. við stjórnvöld við það. Samkvæmt tímaplaninu er miðað við að ljúka þessum viðræðum fyrir miðjan mars en að launabreytingar taki gildi frá 1. mars. Samningurinn mun ekki öðlast gildi fyrr en eftir 3ja mánaða aðlögunartíma, þar sem unnið verður að því að hrinda í framkvæmd ýmsum breytingum og ákvörðunum sem stjórnvöld og Alþingi þurfa að efna í tengslum við samninginn. Samkomulag er um að vegna tímabilsins mars-maí verði greidd eingreiðsla og gangi hlutirnir eftir mun samningurinn sjálfur taka gildi í júní. Náist ekki samkomulag við stjórnvöld og Alþingi breytist samningurinn í skammtímasamning fram á haustið.