Frá aðalfundinum Myndir Pedromyndir
Ársfundur Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) fór fram í Hofi á Akureyri þriðjudaginn 13. maí 2025. Þar voru kynntar niðurstöður fyrir rekstrarárið 2024. Þrátt fyrir áskoranir í rekstri varð þó mjög jákvæð þróun í starfsemi, þjónustu og mannauðsmálum sem gefur tilefni til bjartsýni fram veginn.
- Rekstrarhalli ársins nam 431 milljón króna og má rekja hann að mestu til nýrra kjara- og stofnanasamninga sem ekki hafa enn verið að fullu kostaðir.
- Verkefnið „Vellíðan á vinnustað“ hófst síðla árs 2024. Markmið þess er að efla starfsumhverfi og stuðla að betri heilsu starfsmanna, með það að leiðarljósi að draga úr veikindum vegna starfsaðstæðna.
- HSN hækkaði marktækt í könnuninni „Stofnun ársins“, úr einkunninni 3,76 í 4,1. Einkunnin byggir meðal annars á ánægju starfsmanna, stjórnun og ímynd stofnunarinnar. HSN fór úr 35.-36. sæti í 15.-18. sæti stórra stofnana. Áhersla verður áfram lögð á að efla jákvæða vinnustaðamenningu og góða ímynd – lykilþætti í að halda í gott starfsfólk og laða að nýtt.
- Nýtt húsnæði tekið í notkun á Akureyri: Heilsugæsla HSN á Akureyri hóf starfsemi í vel skipulögðu húsnæði í Sunnuhlíð og sálfélagsleg þjónusta ásamt skrifstofum HSN á Hvannavöllum.
- Heilsueflandi vinnustaður: Verkefnið hófst á Akureyri ásamt nýju fyrirkomulagi teymisvinnu sem miðar að því að bæta skipulag, stuðla að ánægju starfsfólks og auka samfellu í þjónustu við skjólstæðinga. Innleiðing stendur nú yfir á fleiri starfsstöðvum.
- Öflugari sálfélagsleg þjónusta: Nýtt geðheilsuteymi barna hóf starfsemi. Nú er innan HSN boðið upp á bæði sálfræði- og geðheilsuteymisþjónustu fyrir börn og fullorðna.
- Stofnun Akureyrarklíníkurinnar: HSN hefur í samstarfi við SAk sett á laggirnar mikilvæga starfsemi sem þjónustar einstaklinga með ME sjúkdóminn sem er langvinnur þreytusjúkdómur.
- „Gott að eldast“ í Dalvíkurbyggð: Verkefnið var innleitt með yfirfærslu heimahjúkrunar yfir á dvalarheimilið Dalbæ. Ný þjónusta er kvöldþjónusta í heimahjúkrun ásamt stuðningi frá endurhæfingarteymi og tengiráðgjafa.

Jón Helgi Björnsson
Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN: „Þrátt fyrir áskoranir í rekstri þá erum við mjög ánægð með framgang HSN á árinu. Mjög jákvæð þróun varð sem hefur leitt til aukinnar starfsánægju og bættrar þjónustu við skjólstæðinga á þessu víðfeðma svæði. Við höfum m.a. nýtt velferðartækni til að auka öryggi og bæta þjónustu, og mönnun hefur gengið betur en áður – við höfum verið afar heppin með nýráðningar. Eftir þetta tíunda afmælisár HSN lítum við björtum augum til framtíðar með nýja stefnu og starfsáætlun, og mikinn drifkraft í okkar frábæra starfsfólki.“
Frá þessu segir í tilkynningu frá HSN
Ársskýrslu fyrir starfsárið 2024 má sjá á HSN.is.
