Anton Benjamínsson framkvæmdastjóri Slippsins sagði að hafrannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson hefði verið væntanlegt til Akureyrar í smávægilegt viðhald í næstu viku en ljóst sé að umfangsmeira verkefni blasi við mönnum nú. Hann sagði að það kæmi í ljós hver staðan væri þegar skipið hefur verið tekið upp í dráttarbrautina. Ljóst sé þó að skoða þurfi stýristammann og einnig verið hugað að því að smíða nýtt stýri á skipið.
Anton sagði að verkefnastaðan hjá fyrirtækinu væri með allra besta móti. "Það er vitlaust að gera þessa stundina og útlitið næstu vikur og fram að áramótum gott. Við verðum að vinna við skip næstu 6-8 vikurnar að minnsta kosti og svo tekur við smíði á vinnslubúnaði á millidekk í tveimur skipum," sagði Anton. Um er ræða smíði á vinnslubúnaði úr ryðfríu stáli, í þýskt skip tengt Samherja annars vegar og Ljósafell hins vegar.