Arnar Már Arngrímsson er tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2018 fyrir bók sína Sölvasaga Daníelssonar en tilnefningarnar voru kynntar við hátíðlega athöfn sl. helgi. Tilnefnt er í flokki barna- og ungmennabóka, fræðibóka og rita almenns efnis og fagurbókmennta, en fimm bækur eru tilnefndar í hverjum flokki.
Bók Arnars Más er tilnefnd í flokki barna-og ungmennabóka. Sölvasaga Daníelssonar er sjálfstætt framhald Sölvasögu unglings sem kom út árið 2015 og vakti mikla athygli. Sama ár var Arnar tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og árið 2016 hlaut hann Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.
Aðrar bækur sem tilnefndar eru í flokki barna-og ungmennabóka í ár eru Sagan um Skarphéðin Dungal eftir Hjörleif Hjartarson og Rán Flygenring, Ljónið eftir Hildi Knútsdóttur, Rotturnar eftir Ragnheiði Eyjólfsdóttur og Silfurlykillinn eftir Sigrúnu Eldjárn.
Verðlaunin verða afhent á Bessastöðum um mánaðamótin janúar-febrúar á komandi ári og verðlaunaupphæðin ein milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk.