Inflúensa hefur klassísk sjúkdómseinkenni og gang. Aðeins í mjög slæmum tilfellum er gefið inflúensulyf. Sýklalyf virka ekki á inflúensu. Veikindin hefjast mjög skyndilega með háum hita og bein- og vöðvaverkjum. Oft höfuðverkur. Hósti verður fljótlega áberandi, oftast sár hósti sem kemur í miklum hóstakviðum. Það er jafnvel sárt að anda. Ekki rugla við hálsbólgu sem lýsir sér í sárindum við að kyngja og er ekki samfara kvefi og hósta. Inflúensuveikindi vara í 7-10 daga, segir á vef Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri.
Mikilvægt að þeir sem veikjast séu alveg búnir að ná sér þegar farið er af stað í vinnu eða áreynslu. Mikilvægt er að drekka mikið af vökva, gjarnan með viðbættum sykri og smá salti. Verkjalyf notist óspart á meðan að hiti og verkir eru áberandi. Athugið að það er best að halda kyrru fyrir heima og ekki vera á ferðinni á mannmörgum stöðum. Ekki er ástæða til að leita á læknavaktir nema einkenni séu þeim mun alvarlegri, því það er engin sértæk meðferð við inflúensu. Æskilegra að hafa samband við heimilislækni eða vaktlækni ef einkenni eru talin alvarleg, segir ennfremur á vefsíðu HAK.
Nánar má sjá um inflúensu á heimasíðu Landlæknisembættisins