Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvega og nýsköpunarráðherra hleypti af stokkunum átakinu Arctic Services Að baki þess standa um 35 fyrirtæki og stofnanir sem allar eiga það sammerkt að eiga erindi við verkkaupa og framkvæmdaraðila á norðurslóðum í krafti sinnar sérþekkingar og reynslu. Ekki síst felst styrkur verkefnisins í samstöðu og fjölbreytileika þátttakenda sem endurspeglar Eyjafjarðarsvæðið og Ísland.
Kveikjan að stofnun Arctic Services eru aukin umsvif í námu- og olíuvinnslu á Grænlandi, auk opnunar nýrra siglingaleiða um pólinn. Verkefninu er ætlað að gæta hagsmuna íslenskra fyrirtækja í markasðssetningu og kynningu á fjölbreytilegu þjónustu- framboði til staðar á Íslandi. Að baki þess standa m.a. Mannvit, Efla, Eimskip, Slippurinn, Norlandair, Arionbanki, Íslandsbanki og fjöldi annarra fyrirtækja sem hér sameinast í markðassetningu. Átakinu er stýrt af Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar (AFE).
Olíuboranir og vinnsla úti fyrir austurströnd Grænlands liggur mjög vel við norður Íslandi, hvað varðar siglingaleið, þjónustuframboð, innviði og mannafla. Þá byggir verkefnið á langtíma sögulegum tenglsum og viðskiptum við granna okkar á Grænlandi, en m.a. er sjúkraflugi til og frá Grændlandi sinnt af Eyjafjarðarsvæðinu. Þá hefur fjöldi fyrirtækja verið þar í verkefnum, auk þess sem sjúkrahúsið á Akureyri hefur sinnt sjúklingum frá Grænlandi um áratuga skeið.
Áætluð fjárfesting í námavinnslu á Grænlandi er um 100 milljarðar bandaríkjadala á næstu misserum. Á Grænlandi má finna margar sjaldgæfar málm og bergtegundir sem eru afar eftirsóknarverðar, m.a. eru stærstu blý- og sink svæði í heimi nyrst á Grænlandi.