Ánægður með veturinn

Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, er í viðtali í nýjasta tölublaði Vikudags þar sem hann segist ánægður með veturinn hjá sínu liði, þrátt fyrir að stóru titlarnir, Íslands-og bikarmeistaratitlarnir, hafi runnið norðanmönnum úr greipum.

„Þetta var frábær vetur hjá okkur og við sýndum það í þessu einvígi gegn FH að við erum með frábært lið og stóðum vel í FH-ingum. Úrslitaleikirnir voru vissulega ekki að falla með okkur í vetur en við urðum deildarmeistarar og ég held að við getum farið sáttir í sumarið. Ég er svakalega ánægður með mitt lið og breiddina í hópnum. Við höfum sýnt það í þessu einvígi að við höfum fínan hóp og ég blæs á allt tal um litla breidd,” sagði Atli, sem verður áfram við stjórnvölinn hjá Akureyri næsta vetur. 

„Ég er bara strax farinn að hlakka til næsta vetrar og við munum koma enn sterkari til leiks í haust. Vonandi verða flestir leikmennirnir áfram. Núna verður bara farið í það verkefni að ganga frá samningum við leikmenn og við stefnum á að halda sem mest óbreyttu liði,” segir Atli, en nánar er rætt við hann í Vikudegi.

Nýjast