Álíka margir erlendir gestir í fyrra og árið áður

Heildarfjöldi erlendra gesta árið 2010 var tæplega 495 þúsund árið 2010 og er um að ræða 0,2% aukningu frá 2009 en þá voru erlendir gestir 494 þúsund talsins.  Langflestir erlendra gesta eða 93% fóru um Keflavíkurflugvöll, 4% um Reykjavíkur-, Akureyrar- eða Egilsstaðaflugvöll, eða rúmlega 20.000 gestir og 3% með Norrænu um Seyðisfjörð, eða rúmlega 15.300 gestir.    

Þar fyrir utan eru farþegar með skemmtiferðaskipum en tæplega 74 þúsund erlendir gestir komu til landsins með skemmtiferðaskipum árið 2010, 2% fleiri en á árinu 2009 þegar þeir voru tæplega 72 þúsund talsins. Samkvæmt brottfarartalningum Ferðamálastofu í Leifsstöð fóru 459.252 erlendir gestir frá landinu um flugstöðina á árinu 2010, sem er fækkun um 5.300 gesti frá árinu áður eða 1,1% milli ára. Erlendum gestum fjölgaði milli ára í febrúarmánuði, mars, júlí, október og desember, svipaður fjöldi kom í júní og nóvember árið 2010 og árið áður en erlendum gestum fækkaði  hins vegar milli ára í janúarmánuði, apríl, maí, ágúst og september. Allar brottfarir erlendra gesta um Leifsstöð eru inni í þessum talningum, þ.m.t. brottfarir erlends vinnuafls.

Nýjast