13. desember, 2007 - 14:29
Íbúum Akureyrar hefur fjölgað um rúmlega 430 manns á tímabilinu 1. desember 2006 til 1. desember 2007 eða um 2,56%. Hinn 1. desember sl. voru íbúar bæjarins 17.253 talsins, samkvæmt bráðabirgðatölum frá Íbúaskrá Akureyrar. Leita þarf aftur til ársins 1977 til að finna jafnmikla hlutfallslega fjölgun milli ára en þá fjölgaði Akureyringum um 2,80%. Jafnvel árið 2004 þegar Hríseyingar bættust við íbúatölu Akureyrar, var fjölgunin aðeins 2,50%. Meðaltalsfjölgun sl. 30 ár er um 1,3%. Á þessum 12 mánuðum fæddist 261 barn en 103 Akureyringar létust. Fæddir umfram dána eru því 158. Aðfluttir umfram brottflutta á síðasta ári voru hátt í 300 manns. Til suðvesturhorns landsins fluttu héðan um 60 manns umfram þá sem fluttu af því svæði til Akureyrar. Fólksstraumurinn til Akureyrar er hins vegar úr öðrum byggðarlögum á landsbyggðinni en einnig hefur stór hópur komið frá útlöndum eða hátt í 100 manns umfram brottflutta til útlanda. Langstærsti hópurinn kemur frá Póllandi. Þetta kemur fram á vef Akureyarbæjar.