Nú rétt í þessu var verið að draga í undanúrslit Eimskipsbikarkeppni karla-og kvenna í handbolta í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Í karlaflokki fékk Akureyri heimaleik á móti FH og Valur tekur á móti Fram. Í kvennaflokki mætast annars vegar Fram og HK og hins vegar Fylkir og Valur.
Leikið verður í karlaflokki dagana 13. og 14. febrúar en 15. og 16. febrúar í kvennaflokki.
Heimir Örn Árnason, fyrirliði Akureyrar, var sáttur við að fá heimaleik er Vikudagur heyrði í honum um bikardráttinn.
„Það er fyrir öllu að fá heimaleik og það er ekki verra að fá FH-ingana í heimsókn. Þetta verður alveg klikkað,” sagði Heimir og reiknar með jöfnum leik milli liðanna. „Þetta verður bara 50-50 leikur.”