Akureyri mætir Norðurþingi úrslitaviðureigninni í Útsvari

Lið Akureyrar tryggði sér í kvöld sæti í úrslitum í Útsvari, spurningakeppni Sjónvarpsins, með glæsilegum og öruggum sigri á liði Reykjanesbæjar. Lið Akureyrar fékk 92 stig á móti 58 stigum liðs Reykjanesbæjar. Lið Akureyrar mætir liði Norðurþings í úrslitaviðureigninni að viku liðinni.  

Akureyringar náðu forystunni strax í upphafi, þar sem barist var um bjölluna. Þar fengu Akureyringar 12 stig á móti 9 stigum liðsmanna Reykjanesbæjar. Í vísbendingaspurningum bætti Akureyri við tveimur stigum en Reykjanesbær einu stigi og staðan 14-10. Í leiknum fór Hilda Jana Gíslasdóttir á kostum í liði Akureyrar, þannig að þeir Birgir Guðmundsson og Hjálmar Brynjólfsson gátu svarað rétt til um öll orðin sem spurt var um. Liðsmenn Reykjanesbæjar áttu hins vegar í talsverðum erfiðleikum í leiknum og staðan eftir þann lið var 44-25, Akureyringum í vil. Í flokkunum voru hins vegar miklar sviptingar, en eftir erfiða byrjun hjá Akureyringum, þar sem munurinn fór niður í eitt stig, 44-43, snéru Akureyringar taflinu við á ný og staðan fyrir lokabaráttuna var 62-43. Akureyringar fengu svo 30 stig til viðbótar á lokasprettinum á móti 15 stigum Reyknesinga og lokastaðan 92-58 sem fyrr segir.

Þar sem tvö norðanlið mætast í úrslitum keppninnar var það nefnt í Sjónvarpinu í kvöld, hvort ekki væri ástæða að færa viðureignina norður, t.d. í Hof á Akureyri. Það gengur því miður ekki upp af tæknilegum ástæðum og úrslitaviðureignin fer því fram í sjónvarpssal í Reykjavík.

Nýjast