Akureyri leikur til úrslita í bikarnum

Akureyri mun leika til úrslita í Eimskipsbikarkeppni karla í handbolta en það er ljóst eftir þriggja marka sigur liðsins gegn FH, 23:20, í undanúrslitum á Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld. Þetta er í fyrsta sinn sem Akureyri leikur til úrslita í bikarnum en þar mæta þeir Valsmönnum þann 26. febrúar. FH skoraði fyrsta mark leiksins en Akureyri tók fljótlega að síga framúr og náði fjögurra marka forystu, 7:3, eftir korters leik og komst í 10:4.

 

FH-ingar voru í miklum vandræðum í sókninni gegn sterkri vörn Akureyrar en það var helst Ólafur Guðmundsson sem ógnaði marki norðanmanna en hann skoraði þrjú mörk í fyrri hálfleik. FH minnkaði muninn í þrjú mörk, 10:7, en norðanmenn hleyptu þeim ekki nær og höfðu fjögurra marka forystu í hálfleik, 13:9.   

Seinni hálfleikur byrjaði líkt og sá fyrri. FH náði að bíta frá sér á fyrstu mínútunum en norðanmenn náðu fljótlega góðri forystu á ný, 20:13, þegar korter var liðið á seinni hálfleikinn. FH-ingar neituðu hins vegar að gefast upp. Hægt og bítandi söxuðu þeir á forskot norðanmanna og þegar ein og hálf mínúta var eftir minnkaði Örn Ingi Bjarkarson muninn niður í eitt mark. Staðan 21:20 og spennan í hámarki.

Bjarni Fritzson og Sveinbjörn Pétursson tóku þá leikinn í sínar hendur. Bjarni kom Akureyri í 22:20 og Sveinbjörn varði hinu megin. Bjarni skoraði aftur, 23:20, og sigurinn í höfn og norðanmenn fögnuðu vel og innilega í leikslok, enda komnir í stærsta handboltaleik ársins. 

Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 8, Heimir Örn Árnasson 5, Oddur Gretarsson 5, Guðmundur Hólmar Helgason 4, Hörður Fannar Sigþórsson 1.

Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 19.

Mörk FH: Ólafur Guðmundsson 5, Ásbjörn Friðriksson 5, Halldór Guðjónsson 3, Örn Ingi Bjarkarson 2, Baldvin Þorsteinsson 2, Atli Rúnar Steinþórsson 2, Ólafur Gústafsson 1.

Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 6, Pálmar Pétursson 3.

Nýjast