Lið Akureyrar vann glæsilegan sigur á liði Grindavíkur í 16-liða úrslitum í spurningaleiknum Útsvari í Sjónvarpinu í
kvöld. Akureyri fékk 78 stig gegn 63 stigum Grindvíkinga og tryggði sér sæti í 8-liða úrslitum keppninnar síðar í vetur.
Það kom ekki að sök að skipta þurfti um tvo af þremur liðsmönnum Akureyrar en þau Birgir Guðmundsson og Hilda Jana Gíslasdóttir
komust ekki suður vegna veðurs og ófærðar.
Í þeirra stað komu inn í liðið með Hjálmari Stefáni Brynjólfssyni, sem var staddur fyrir sunnan, þau María
Pálsdóttir leikkona og Erlingur Sigurðarson skáld, sem hefur verið í liði Akureyrar síðustu ár. Jafnræði var með liðunum
framan af leik og Grindavíkingar leiddu eftir fyrstu þrjá liði keppninnar. Þá tóku Akureyringar við sér og lönduðu öruggum
sigri.