Að jafnaði farast um tveir einstaklingar í eldsvoðum hérlendis á ári hverju. Eldsvoðar valda árlega eignatjóni uppá um einn og hálfan milljarð króna. Líkur á eldsvoðum aukast talsvert á aðventunni vegna mikillar notkunar rafmagns og kertaljósa. Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn leggja því áherslu á að allir tileinki sér grunnatriði eldvarna. Sem fyrr leggja þeir megináherslu á að reykskynjarar séu á hverju heimili enda er lífbjörgun forgangsverkefni slökkviliðanna. Eldvarnablaðið 2007 er komið út og hefur því verið dreift til þorra landsmanna. Þar er að finna allar helstu upplýsingar um eldvarnir heimilanna. LSS og TM hafa gengið frá samkomulagi um að TM verði samstarfsaðili LSS í Eldvarnaátakinu næstu þrjú árin og leggi því lið með umtalsverðu fjárframlagi.
Sverrir Björn Björnsson, formaður LSS, segir að könnun sem Gallup gerði fyrir LSS og Brunamálastofnun sýni að enn þurfi að gera átak í því að bæta eldvarnir heimilanna. Talsvert vanti uppá að nægilega margir hafi reykskynjara, eldvarnateppi og slökkvitæki á heimilum sínum. "Við slökkviliðsmenn spyrjum okkur oft hvernig í ósköpunum standi á því að eftir allan áróðurinn og alla fræðsluna skuli enn vera til heimili án lágmarks eldvarna. Hver gæti horft framan í sjálfan sig eftir missi ástvinar í eldsvoða vitandi að láðst hafði að setja upp reykskynjara sem hefði bjargað? Fyrir því er engin afsökun," segir Sverrir Björn.