Vandi síðustu vikna hefur falist í auknum sveiflum í pH-gildi afrennslis. Hæstu og lægstu gildi hafa þannig farið út fyrir mörk í starfsleyfi við vissar aðstæður og þá í mjög skamman tíma í senn. Með öðrum orðum hefur pH-gildi frá verksmiðjunni að jafnaði verið vel innan marka. Umræða um að allt afrennsli verksmiðjunnar sé og hafi verið með mjög hátt pH-gildi og langt yfir starfsleyfismörkum er því víðsfjarri sannleika.
Becromal lýsti strax í gær yfir að aukinn þungi hafi verið settur í breytingar á tækjabúnaði til að fást við
sveiflur þannig að pH-gildi fari aldrei út fyrir mörk. Því er lokið með þeim árangri að pH-gildi afrennslisins er mjög
stöðugt. Til samanburðar má benda á að pH-gildi í frárennsli verksmiðjunnar síðasta sólarhring er um 8,5 að jafnaði en
pH-gildi hitaveituvatns á höfuðborgarsvæðinu er um 9,5 og miðað er við hlutlaust vatn hafi pH-gildi 7,0.
Becromal tilkynnti jafnframt í gær að sýni yrðu tekin úr sjó í nágrenni verksmiðjunnar og með því fengist svar við
spurningum um sjávaráhrif af afrennsli hennar. Sýni voru tekin í morgun og mun Matís annast úvinnslu þeirra um helgina. Niðurstöðurnar
munu liggja fyrir á mánudag, segir í yfirlýsingu frá Becromal Iceland.