Pepsi-deild karla í knattspyrnu hefst um helgina en vegna þátttöku U-21 árs karlandsliðsins á EM eru fyrstu leikirnir í deildinni fyrr á ferðinni núna en venjulega.
Eflaust hafa Þorpsbúar og aðrir Akureyringar beðið óþreyjufullir eftir sumrinu þar sem Þór mun nú spila í úrvalsdeildinni í sumar í fyrsta sinn síðan sumarið 2002 og Akureyringar eiga nú lið í efstu deild karla í fyrsta sinn síðan 2004.
„Við erum mjög spenntir fyrir sumrinu og það er mikil tilhlökkun hjá mér og öllu liðinu að byrja mótið,” segir Páll Viðar Gíslason þjálfari Þórs. „Þó við höfum ekki fengið þau úrslit á undirbúningstímabilinu sem við hefðum viljað að þá hefur þetta gengið alveg ásættanlega hjá okkur í vor. Mínir menn eru tilbúnir í slaginn og ég er bara tiltölulega bjartsýnn á sumarið,” segir Páll.
Hann segir að liðið hafi ekki sett sér nein ákveðin markmið fyrir sumarið og menn ætli sér ekki að horfa of langt fram í tímann.
„Við ætlum ekkert að setja okkur nein langtímamarkmið. Við ætlum okkur bara að taka einn leik fyrir einu. Við ætlum ekki að fara að reita okkur í eitthvað ákveðið sæti, það er búið að gera það fyrir okkur,” segir hann, en hinir ýmsu sparkspekingar landsins hafa verið að spá Þórsurum beina leið niður í 1. deildina í ný.
Nánar er rætt við Pál Viðar um Pepsi-deildina í Vikudegi í dag.