Í tilefni af stórafmæli Vigdísar Finnbogadóttur á síðastliðnu ári, og því að 30 ár voru liðin frá
sögulegu forsetakjöri hennar, vill Actavis leggjast á árar með stofnuninni við að koma á fót alþjóðlegri
tungumálamiðstöð hér á landi í nafni Vigdísar. Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur hefur sett sér það markmið að
byggja þrjú þúsund fermetra hús austan við Háskólabíó sem mun m.a. hýsa alþjóðlega
tungumálamiðstöð og alla kennslu og rannsóknir í þeim 14 erlendu tungumálum sem kennd eru við Háskóla Íslands.
Með því að setja tungumálamiðstöðina á laggirnar er haldið áfram því brautryðjendastarfi sem Vigdís
Finnbogadóttir hefur unnið í þágu tungumála á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Actavis er alþjóðlegt fyrirtæki,
sem þekkir af eigin raun, hve veigamikið það er í alþjóðaviðskiptum að hafa á að skipa starfsmönnum sem búa yfir
góðri kunnáttu í erlendum tungumálum og eru læsir á menningu annarra þjóða. Vigdís Finnbogadóttir var viðstödd
undirritun samningsins í Háskóla Íslands í dag ásamt Ástráði Eysteinssyni, forseta Hugvísindasviðs og Auði
Hauksdóttur, forstöðumanni Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur.