Íslenskt mál
65. þáttur 24. janúar 2013
Í þessum þætti er fjallað um íslenskt mál, málfræði og örnefni, auk þess sem svarað er spurningum lesenda. tryggvi.gislason@simnet.is
Ég *viLL
Sífellt algengara er að heyra fullorðið fólk segja ég *viLL í stað þess að segja ég vil. Samkvæmt þúsund ára gamalli málvenju er þetta málfræðilega rangt, því að allt frá Agli Skalla Grímssyni, sem fæddur er um 910, hefur verið sagt:
ég vil
þú vilt
hann/hún vill
við viljum
hann/hún vill
þið viðjið
Hingað til hefur það verið talið barnamál að segja ég *viLL, það er að segja mál barna sem ekki hafa öðlast fullan málþroska. Nú er hins vegar sífellt algengara að heyra fulltíða fólk jafnvel fólk um fimmtugt nota þetta barnamál. Síðast heyrði ég formann samtaka innan atvinulífsins, konu um sextugt, segja þetta í fréttum Ríkisútvarpsins og frambjóðand til Alþingis, karl um fertugt, endurtók hvað eftir annað: ég *viLL í umræðuþætti í sjónvarpi og verður honum vonandi að vilja sínum.
Hvað er til ráða? Á að láta málið þróast á þennan veg eða eigum við eða getum við málverndar- og málræktarfólk gert eitthvað? Hér eins og oft áður er hlutur kennara mestur. Ber að hafa í huga, að allir kennarar á Íslandi eru íslenskukennarar. Þá er hlutur foreldra og heimila mikill. Áríðandi er að halda grundvallarþáttum málsins óbreyttum, enda þótt ýmsar smávægilegar breytingar verði og sífellt bætast ný orð við eins og eðlilegt og nauðsynlegt er, orð sem gerð eru á grunni erfðarorða málsins eða löguð að íslensku málkerfi.
Umhugsunarvert er hins vegar að Ríkisútvarpið musteri íslenskrar tungu, áhrifamesti kennarinn og stærsta kennslustofa landsins virðist ekki hafa mikinn áhuga á að leiðbeina um mál og málnotkun og því síður að kenna eða fræða um íslenskt mál. Er þá bæði átt við útvarp og sjónvarp, enda er mörgu ábóta vant í máli útvarps og sjónvarps og má oft heyra þrístrikaða villu í Ríkisútvarpinu. Eini þátturinn í Ríkisútvarpinu, sem talist getur tengjast íslensku máli, er þátturinn Tungubrjótur sem virðist eiga að vera ódýr skemmtiþáttur, enda er margt hnyttilega sagt í þeim þætti.
Til fróðleiks má geta þess að í nágrannamálunum dönsku og norsku hefur þróun málsins gengið lengra gengið alla leið, því að á dönsku segir fólk: jeg vil, du vil, han/hun vil, vi vil, I vil, de vil sama orðmyndin alls staðar. Hugsanlegt er því að íslenskan lendi á sama stað, ef ekkert verður að gert.