Ýmislegt hefur breyst á þessum 100 árum og hafa konur verið að sækja í sig veðrið á vettvangi bæjarmálanna. Kjörtímabilið 1998-2002 voru þrjár konur í bæjarstjórn, Ásta Sigurðardóttir Fransóknarflokki, Oktavía Jóhannesdóttir Alþýðuflokki og Þóra Ákadóttir Sjálfstæðisflokki. Kjörtímabilið 2002-2006 voru konur í bæjarstjórn svo orðnar sex talsins, Gerður Jónsdóttir, Framsóknarflokki, Marsibil Fjóla Snæbjarnardóttir, L-lista, Oktavía Jóhannesdóttir, Samfylkingu, Sigrún Björk Jakobsdóttir, Sjálfstæðisflokki, Valgerður H. Bjarnadóttir, Vinstri grænum og Þóra Ákadóttir, Sjálfstæðisflokki.
Kjörtímabilið 2006-2010 voru fimm konur kjörnar í bæjarstjórn Akureyrar, Elín Margrét Hallgrímsdóttir, Sjálfstæðisflokki, Helena Þuríður Karlsdóttir, Samfylkingu, Kristín Sigfúsdóttir, Vinstri grænum, Sigrún Björk Jakobsdóttir, Sjálfstæðisflokki og Sigrún Stefánsdóttir Samfylkingu. Aftur fækkaði um eina konu í síðustu kosningum, sem fram fóru sl. vor en af þessum fjórum konum í bæjarstjórn koma þrjár þeirra úr röðum L-listans, Halla Björk Reynisdóttir, Hlín Bolladóttir og Inda Björk Gunnarsdóttir. Fjórða konan er Andrea Sigrún Hjálmsdóttir, Vinstri grænum.