Vikublaðið kemur út í dag

Vikublaðið kemur út í dag og að vanda kennir ýmissa grasa í blaði vikunnar þar sem finna má áhugaverðar fréttir og skemmtilegt mannlífsefni.

Meðal efnis:

*Fjallað er um fyrirhugaða stækkun þekkts húss í miðbæ Akureyrar og þar sem áhugaverðar hugmyndir eru á lofti um að bjóða bænum til afnota.

*Helena Eyjólfsdóttir er landsmönnum góðkunn en hún söng sig inn í hjörtu íslensku þjóðarinnar sem barn og hefur gert ófáar dægurlagaperlurnar ógleymanlegar á löngum ferli sem söngkona. Helena vakti nýverið athygli í þættinum Það er komin Helgi þar sem hún mætti í heimsókn í hlöðuna til Helga Björns og Reiðamanna Vindanna. Rætt er við Helenu í blaðinu.

*Fjallað er ítarlega um helsta hitamálið á Húsavíku í blaðinu sem snýr að rammasamningum.

*Norðlensk hlaðvörp (e.podcast) hafa verið að ryðja sér til rúms undanfarnar vikur eftir að Podcast Stúdíó Akureyrar fór í loftið snemma á þessu ári. Fjölmargir þættir eru í boði sem teknir eru upp í glænýju stúdíói þar sem allt er til alls til að gera góðan hlaðvarpsþátt. Í Vikublaðinu er stiklað á stóru yfir það sem er í boði varðandi norðlenska hlaðvörp.

*Guðmundur Þráinn Kristjánsson, oftast kallaður Gummi Lilla er með bréfdúfur í kofa við Ásgarð á Húsavík en hann sagði í samtali við Vikublaðið að hann sé búin að stunda þetta sport í fjöldamörg ár. Á dögunum beið hans óboðinn gestur í dúfnakofanum.

*Hafrún Olgeirsdóttir fulltrúi E-lista í sveitarstjórn Norðurþings vakti máls á því á fundi sveitarstjórnar að sú staða væri komin upp á leikskólanum Grænuvöllum að ekki væri að takast að tryggja öllum börnum sem hafa náð eins árs aldri leikskólavist. Þá er ekkert annað úrræði í boði á vegum sveitarfélagsins til að brúa bilið að loknu fæðingarorlofi.

*„Það var mikið gleðiefni þegar Hjalti vinur minn skoraði á mig í þetta ágæta matarhorn. Hann hefur væntanlega gert það að áeggjan Siguróla sem ég er búin að þekkja af góðu einu mun lengur,“ segir Brynjar Davíðsson sem tók áskorun frá Hjalta Þór Hreinssyni og sér um matarhornið þessa vikuna.

*Blaðamaður Vikublaðsins leit við í Húsavíkurkirkju á föstudag í síðustu viku en þar voru saman komin Laufey Jónsdóttir, eiginkona Hafliða Jósteinssonar heitins og börn þeirra. Hafliði hefði orðið áttræður þennan dag og í tilefni þess kom fjölskyldan færandi hendi og afhentu hollvinum kirkjunnar peningagjöf að upphæð 500 þúsund í minningu Hafliða.

*Umhverfis- og mannvirkjaráð Akureyrarbæjar hefur samþykkt að taka tilboði Kletts og ganga til samninga um kaup á metan strætisvagni uppá rúmar 42 milljónir kr. Gert er ráð fyrir að nýi vagninn komi til Akureyrar þann 1. september. Þetta verður fjórði metan vagninn í strætóflota bæjarins en einnig eru í notkun fjórir eldri vagnar sem ganga fyrir díselolíu.

Smelltu hér til að gerast áskrifandi. 


Nýjast