Vegalengd sem ekið var jafngildir 4,4 ferðum umhverfis jörðina

Axel Jensen framkvæmdastjóri Hopp á Akureyri segir sumarið hafa verið ævintýri líkast. Alls voru 65 …
Axel Jensen framkvæmdastjóri Hopp á Akureyri segir sumarið hafa verið ævintýri líkast. Alls voru 65 rafmagnshlaupahjól í útleigu. Ferðirnar voru 103 þúsund og hjólunum ekið sem samsvarar 4,4 sinnum umhverfis hnöttinn.

„Þetta var ævintýri líkast. Við erum í skýjunum yfir viðtökunum,“ segir Axel Jensen framkvæmdastjóri hjá Hopp á Akureyri. Félagið hóf göngu sína í bænum á liðnu vori, en það leigir út Hopp rafmagnshlaupahjól.

Nýlega var gengið frá hjólunum fyrir veturinn en ekki þykir ráðlegt að vera með þau í útleigu í vetrarríkinu sem á stundum ræður ríkjum norðan heiða.

Ekið tæplega 170 þúsund kílómetra

Hopp bauð upp á 65 rafmagnshlaupahjól í sumar og voru þau leigð út í 103 þúsund skipti. Hjólin komu á göturnar í vor og voru sett í geymslu fyrir um 2 vikum, þannig að þau voru aðgengileg í 6 mánuði. Á þeim tíma var þeim ekið um götur Akureyrar tæplega 170 þúsund kílómetra, tæplega 4,4 sinnum umhverfis jörðina. Gera má ráð fyrir að vel á 2,4 tonn af koltvísýringi hafi sparast með þessum ferðamáta ef miðað er við að fólk hefði ella ferðast um á bíl.

Fjölga hjólum um meira en helming

Axel segir að eftirspurn hafi verið meiri en gert var ráð fyrir þegar starfsemin hófst. „Viðbrögðin voru mun betri en við gerðum ráð fyrir þannig að við munum fjölga hjólum um meira en helming fyrir næsta sumar. Ég geri ráð fyrir að vera með 140 til 160 hjól í rekstri þá,“ segir hann.

Axel segir að fólk á öllum aldri hafi nýtt sér þann kosta að hoppa á næsta lausa rafmagnshlaupahjól. Til að byrja með hafi einkum yngra fólk verið í hópi þeirra sem gripu hjólin, en eftir því sem á leið sumarið fór meðalaldur notenda hækkandi. „Við sáum alveg þó nokkuð um eldra fólk sem var að nýta sér hjólin og einnig var töluvert um að fólk væri að fara á hjólum til og frá vinnu,“ segir Axel. Reynslan af fyrsta sumrinu segir hann að hafi m.a. verið sú að hafa fleiri hjól tiltæk inni í hverfum bæjarins.

Nokkrir starfsmenn störfuðu hjá félaginu, m.a. við að fara um og hlaða hjól, lagfæra ef illa var lagt og fleira í þeim dúr og var verið að störfum frá 9 á morgnana til 11 á kvöldin og miðnættis um helgar. Mikill tími fór í að viðhalda hjólunum og Axel segir að dagarnir hafi oft verið langir.

Axel segir að tíðarfar á Akureyri yfir vetrarmánuði gerir rekstur hlaupahjóla erfiðan. Hann muni hins vegar skoða næsta haust hvort grundvöllur reynist fyrir því að setja nagladekk undir einhvern hluta hjólanna og prófa hvernig gengur.

/MÞÞ

smellið gif

 


Athugasemdir

Nýjast