30. október - 6. nóember - Tbl 44
Umhverfisvænni kostir fundust ekki fyrir nýjan ferlibíl
Leitað verður eftir nýjum ferlibíl fyrir Strætisvagna Akureyrar sem gengur fyrir dísel orkjugjafa og uppfyllir að lágmarki Euro 6 mengunarstaðal. Ekki fundust aðrir umhverfisvænni kostir segir í bókun umhverfis- og mannvirkjaráðs.
Ferliþjónustan fékk á liðnu ári tvær nýjar bifreiðar í rekstur. Þær eru af gerðinni Iveco og ganga fyrir Metani. „Þær hafa vægast sagt ekki reynst okkur vel og hafa verið mikið bilaðar og það mál erum við að vinna með söluaðilum,“ segir í minnisblaði vegna kaupa á ferlibíl. Stór galli á bílunum var að gaskútar sem knýja metanið eru mjög háir og stórir, þeir eru undir bílunum sem veldur því að enginn möguleiki er á að setja rafmagnslyftu til að auðvelda aðgengi skjólstæðinga í og úr bifreiðunum.
Iveco er eini framleiðandinn sem býður bifreiðar í þessum stærðarflokki sem ganga fyrir Metani. Benz framleiddi slíkar bifreiðar en framleiðslu er hætt vegna ýmissa vandamála. Fram kemur að þróun hafi ekki verið nægilega hröð þegar kemur að bifreiðum sem knúnar eru með rafmagni og af þessari stærð sem hentar ferliþjónustunni. Ekki er hentugt að rafhlaða sé í undirvagni, m.a. þar sem bolta þarf sæti og festingar við gólfið fyrir hjólastóla. Rafhlöður í bifreið sem á að flytja 5 til 6 farþegar og 2 hjólastóla er mjög þung og heildarþyngd bifreiðarinnar verður því mikil
Ferliþjónustan gerir kröfur um að ein áfylling orkugjafa dugi í 8 klukkustundir við verstu aðstæður „og það höfum við ekki séð með rafknúnar bifreiðar. Annað er það að engir innviðir eru tilbúnir til að fara að færa bifreiðar í rekstri yfir í rafmagn,“ segir í minnisblaði.