Spegill inn í horfinn tíma

Hluti af landsliðinu á framkvæmdatímanum. Myndir/aðsendar
Hluti af landsliðinu á framkvæmdatímanum. Myndir/aðsendar

Skjálfandaflói, ein helsta lífæð Húsavíkur í gegnum tíðina er löngu orðinn heimsfrægur fyrir ljúfu risana, hvalina sem ferðamenn koma til að skoða í sínum náttúrulegu heimkynnum.

Það er fleira einstakt við þennan fallega flóa sem vaktaður er af tignarlegum Kinnarfjöllunum en lífríkið í sjónum. Flatey er ein af þessum perlum sem flóinn hefur að geyma. Áður fyrr var blómleg byggð í Flatey, þar bjuggu alvöru Íslendingar sem drógu lífsbjörg sína upp úr sjóum umhverfis eyjuna. Þegar flest var árið 1952 bjuggu 129 manns í eyjunni en upp úr því fór íbúum að fækka.

Það var svo með trega að síðustu 50 íbúarnir tóku ákvörðun um að flytja upp á fastalandið en árið 1967 sigldu síðustu eyjaskeggjarnir með búslóðir sínar „í land“, flestir til Húsavíkur. Síðan þá hefur Flatey verið flestum gleymd nema fyrrum íbúum og afkomendum þeirra.

 Byggja upp með sóma

Flatey 1

Það hefur þó verið að breytast undanfarin ár en fleiri og fleiri gestir hafa verið að uppgötva töfra Flateyjar á hverju sumri. Og þessir töfrar eru engum líkir. Það má með sanni segja að Flatey á Skjálfanda sé spegill inn í horfinn tíma. Við að stíga í land í Flatey upplifir maður ekki aðeins stórbrotna náttúrufegurð og einstaka kyrrð. Í Flatey skynjar maður íslenska lífsbaráttu eins og hún var á fyrri hluta síðustu aldar, í hverju skrefi. Og ef maður opnar hugann upp á gátt getur maður sé skugga fyrrum íbúa bregða fyrir.

Enda hafa Flateyingar og afkomendur þeirra verið duglegir við að halda við og endurbyggja hús í eyjunni fögru. Einn þeirra er Stefán Guðmundsson, eigandi og  framkvæmdastjóri Gentle Giants hvalaferða (GG), en hann er Flateyingur í húð og hár.

„Pabbi er náttúrlega fæddur þarna og uppalinn og ég er búinn að vera þarna frá því maður byrjaði að skríða. Mér finnst bara að voðalega gott að geta skilað einhverju til eyjarinnar að einhverju leiti. Það er svona eiginlega móttóið hjá manni,“ segir Stefán og það er ekki laust við að hann klökkni þegar hann lætur hugann reyka til æskuáranna í Flatey. Stefán er einmitt að sigla úr Húsavíkurhöfn þegar blaðamaður nær af honum tali, með fullan bát af ferðamönnum leið í dagsferð til Flateyjar.

 Heldur minningu langafa síns á lofti

Stefán hefur lagt sitt á vogarskálarnar við að koma Flatey upp úr glatkistunni en hann hefur staðið fyrir umtalsverðri uppbyggingu á þessum æskuslóðum sínum undan farin ár. Þá hefur hann boðið upp á fjölbreyttar ferðir til Flateyjar með GG sem njóta sívaxandi vinsælda. Á dögunum lauk stóru verkefni þar sem Stefán endurbyggði járnsmiðju og lifrarbræðslu langafa síns, en hefð er fyrir því í Flatey að aðeins megi byggja hús á grunni þeirra sem fyrir voru.

„Það hefur verið regla sem menn hafa unnið eftir og er bara mjög gott að halda í,“ Segir Stefán og bætir við að nú sé lokið 30 daga vinnutörn þar sem „Smiðjan“ var endurbyggð.

„Þetta eru ekki tvö hús heldur var þetta sambyggt undir þessu sama þaki. Járnsmiðja langafa míns og svo var lifrarbræðsla í stærri partinum. Við munum halda okkur við nafnið sem gamli maðurinn var með en það var Smiðjan. Þetta er bara prýði fyrir eyjuna og eyjaskeggja. Þetta hefur oft verið stefna hjá eyjaskeggjum alltaf leynt og ljóst að viðhalda húsum og endurbyggja með góðu móti og við erum að halda því áfram,“ útskýrir Stefán.

 Brellin framkvæmd

Flatey 2

Það er hægara sagt en gert að standa í byggingaframkvæmdum í Flatey, þar eru engar stórvirkar vinnuvélar og vitanlega þarf að sigla með allt byggingarefni frá „fastalandinu“. „Mér reiknast lauslega til að í þetta hafi farið u.þ.b. 60 tonn af efni. Aþena ÞH fór örugglega einar 40 ferðir á milli, Aron ÞH 2 ferðir. Faldur ÞH eina ferð og Þorleifur EA eina ferð,“ útskýrir Stefán en þarna er um að ræða eikarbáta GG, að þeim síðast nefnda frátöldum.

Stefán viðurkennir að framkvæmdirnar hafi verið mikil áskorun enda gefi elementin engan afslátt þó komið sé fram á vor. „Veðrin í nýliðnum maímánuði voru fjölbreytt og erfið lengst af.“

Þá segir hann að alls komnar brellum hafi þurft að beita í ferlinu til þess að klára verkið á tilsettum tíma. „Rétt í lokin áttum við von á 30 borðum af panel en þau höfðu ekki skilað sér frá Reykjavík. Okkur bráðvantaði efnið og ekkert annað að gera en að taka upp símann og hringja í alvöru sendibílstjóra um morguninn sem brást skjótt við og brunað með panelinn frá Reykjavík til Húsavíkur. Það var ýmsilegt í þessum dúr sem þurfti að leysa í ferlinu,“ segir Stefán og bætir við að þetta hefði ekki verið hægt nema með einvalaliði góðs fólks sem lagði allt í sölurnar til að ná markmiðinu.

„Landsliðið mitt í þessu verkefni var skipað Kára Guðmundssyni yfirsmið. Konan hans Helga Fanney hélt í okkur lífinu kvölds og morgna með framúrskarandi eldamennsku. Stefán nafni minn Baldursson, grjótharður og "allt-muligt-mann" ásamt Leifi barnabarni hans. Síðast en ekki síst okkar starfsmaður , Miro grásleppukóngur og Svavar Örn hörkutól og mágur minn. Á kantinum voru svo mínir menn Karl Óskar og félagar,“ segir Stefán og bætir við að Almar og Knútur hjá Faglausn á Húsavík hafi séð um teikningar og leyfismál. „Á endasprettinum komu svo aðrir landsliðsmenn, hver á sínu sviði. Feðgarnir, Gunni og Siggi Illuga. Alli vinur minn á Hvíslarhóli. Áki Hauks og hans eðalmenn; Bjarni, Örvar og Jón Óskar.“

 Keppt við tímann

Flatey 3

En af hverju þessi sprengur?

„Það var búið að panta farir stóran hóp þann 3. júní kl 16, fyrir 80 manna lúxus hóp af skemmtiferðaskipinu Silver Sea sem Kalli stórvinur minn í Nordic Luxury skipulagði og pantaði reyndar í júlí á síðasta ári,“ segir Stefán og bætir við að þarna hafi verið komið tilefni til endurreisnar.

„Þetta færðist reyndar fram um einn dag fyrir viku áður en við tókum á móti þeim á afmælisdag móður minnar. Engin pressa,“ segir Stefán glettinn.

„Þetta var sigling, skoðun í eyjunni og matur með viðeigandi músík. Maturinn var eldaður af Hrólfi og Hauki stórmeisturum frá Fosshóteli Húsavík. Borinn fram af frábærum þjónum, Lukasz og Wojciech. Siggi Tryggva harmonikkuleikari par excellence og Pálmi Björns gítarmeistari léku undir borðhaldi við mikinn fögnuð,“ útskýrir Stefán stoltur.

Fjölnota hús

Flatey 4

Aðspurður segir Stefán að þessi uppbygging hafi þó ekki verið hugsuð sérstaklega með ferðaþjónustu í huga, heldur aðeins að koma upp aðstöðu til að geta boðið upp á fjölbreytta viðburði og uppákomur.

„Þetta var svona hugsað sem samnefnari fyrir þá sem að vildu heimsækja eyjuna og vantar einhverja svona aðstöðu. Við erum búin að vera í einhver 15 ár í  svona útiaðstöðu. Hún er náttúrlega alltaf háð bestu veðrum. Þarna er þetta sem sagt hugsað með það í huga ef fólk vill vera undir þaki, þá er það loks gerlegt í þessari byggingu,“ segir Stefán og bætir við að fyrsti hópurinn hafi verið himinlifandi með sína upplifun. 

Flatey 5

„Við kölluðum þetta generalprufu af því að þarna var verið að keppast við að koma þessu í gagnið áður en að fyrsti hópurinn mætti og það tókst. Ég veit ekki betur en að það verði framhald á því frá þessum sama aðila. Svo er auðvitað öllum velkomið að koma og gera sér glaðan dag þarna með einum eða öðrum hætti. Svo er Landsvirkjun að koma á morgun föstudag með 55 manna hóp. Eins og ég segi, það er hægt að gera alls konar viðburði þarna og búið að spyrjast fyrir með brúðkaupsveislur, tónleika og ýmislegt annað,“ útskýrir Stefán.

Þá má geta þess að mikið var gert úr því að húsið yrði sjálfbært og umhverfisvænt. „Já, húsið er grænt í gegn en það er knúið 10 stórum sólarsellum sem geta skilað því þúsund amperstundum inn á rafhlöðu. Við ætlum að keyra þetta þannig,“ segir Stefán Guðmundsson Flateyingur að lokum.


Athugasemdir

Nýjast