Orkufrekur iðnaður sem næst auðlindunum

Kísiliðjan við Mývatn. Myndin er úr Víkurblaðinu og sótt á timarit.is
Kísiliðjan við Mývatn. Myndin er úr Víkurblaðinu og sótt á timarit.is

Gamla fréttin er úr Víkurblaðinu miðvikudaginn 27. Október 1999 sem þá var hluti af Degi.

Í fréttinni er komið inn á málefni Kísiliðjunnar í Mývatnssveit en starfsemi hennar lagðist af árið 2004 eftir að hafa framleitt kísilgúr frá árinu 1967. Einnig er komið inn á virkjunarmál í Þingeyjarsýslu en saga stóriðju og virkjana í Þingeyjarsýslu er orðin löng og er enn verið að rita miðað við nýjustu fréttir um frekari uppbyggingu á Bakka við Húsavík.


 

Á fundi á Húsavík í gær voru þingmenn minntir á að þeir eru löggjafar fyrir bæði stjórnsýslustigin og þurfa að tryggja ákveðið jafnræði ríkis og sveitarfélaga.

Þingmenn Norðurlandskjördæmis eystra litu við á Húsavík í gær á sinni árlegu yfirreið um kjördæmið og sátu fund með bæjarstjórn Húsavíkur, þar sem til umræðu voru helstu mál sem á Húsvíkingum brenna í nútíð og framtíð. Reinhard Reynisson, bæjarstjóri, sagði fjölmörg mál hefði borið á góma og þung áhersla lögð á nokkur þeirra.

„Við óskuðum sérstaklega eftir því að fá skriflega staðfestingu þingmannanna og samgönguyfirvalda á því að staðið verði við breytt fyrirkomulag hafnarframkvæmda á Húsavík, þ.e. að þeim ljúki á áætluðum tíma, og ekki verði aðeins um að ræða frestun á upphafi framkvæmda og svo allt óljóst um framhaldið. Hið sama á við um vegaframkvæmdir um Tjörnes, sem tengjast málinu, að það verði staðfest að verklok þar verði árið 2003 eins og um er talað.“

Kísiliðjan og mannlífið

„Við minnum enn einu sinni á Kísilveginn, bæði vegna þungaflutninga á kísilgúrnum og einnig vegna uppbyggingar í ferðaþjónustu og mikilvægi Húsavíkur sem þjónustumiðstöðvar Þingeyjarsýslu. Einnig komum við inn á Kísiliðjuna og okkar mat á því umhverfismati sem þar hefur farið fram, en þar teljum við að það hafi miklu afdrifaríkari afleiðingar fyrir hið mannlega samfélag í héraðinu að leggja þessa starfsemi af, en sýnilegt er að áframhaldandi vinnsla hafi fyrir lífríki vatnsins og umhverfið.

Vegamál innanbæjar voru einnig til umræðu þ.e. þjóðvegir í þéttbýli og þar er stóra áhersluatriðið tenging norðurhluta hafnarinnar við miðhlutann og hér upp Naustagilið. Þörfin er þegar brýn á þessum lagfæringum og fyrirhugaðar hafnarframkvæmdir þrýsta enn frekar úr úrlausn þessara mála. Okkur líst ekki á að fara með allt það efnismagn, sem er um 300 þúsund rúmmetrar, um veginn eins og hann er, slitlagslaus.“

Hagsmunir þjóðar og Þingeyinga

Þá var fjallað á fundinum um virkjun orkuauðlinda í héraðinu sérstaklega þau verkefni sem Húsavíkurbær er aðili að , en einnig þau sem snúa að Landsvirkjun, þ.e. Bjarnarflagið. Og í framhaldi af því nýtingu á þessum orkuauðlindum. „Bæjarráð hefur samþykkt að fela bæjarstjóra að hefja undirbúning að því að láta vinna staðarvalsathugun fyrir orkufrekan iðnað hér í sýslunni. Við leggjum til mikla áherslu á þetta mál og bentum þingmönnum á að þarna fara saman hagsmunir svæðisins í því að við fáum að nýta orkuauðlindirnar sem næst okkur og svo þjóðarhagsmunir. Með því að staðsetja orkufrekan iðnað hér á svæðinu, sem næst auðlindunum, losnum við við uppbyggingu á dýrum flutningsmannvirkjum fyrir orkuna milli landshluta og tilheyrandi orkutapi í flutningum. Þarna eiga Þingeyingar, eins og svo oft áður í sögunni auðvitað, samleið með landsmönnum öllum.“

Að sögn Reinhards voru fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga rædd á fundinum í ljósi þessa að rekstrarhalli sveitarfélaganna er viðvarandi og mikill á meðan ríkið er að greiða niður skuldir í stórum stíl. „Við teljum einfaldlega að það sé ekki rétt gefið í þessum málum og vildum minna löggjafann á það. Og ennfremur að löggjafinn er ekki sérstakur fulltrúi framkvæmdavaldsins, hann er auðvitað löggjafi fyrir landið allt og bæði stjórnsýslustigin og verður að gæta einhvers jafnræðis í því hvernig málum er komið fyrir innan lagarammans.“

JS


Athugasemdir

Nýjast