4. sept - 11. sept - Tbl 36
Miðgarðakirkja í Grímsey
„Við tökum eitt skref í einu og að einn góðan veðurdag náum við að ljúka því,“ segir Alfreð Garðsson formaður Sóknarnefndar í Grímsey. Vinnu við uppbyggingu nýrrar Miðgarðakirkju hefur miðað vel áleiðis. Kirkjan brann til kaldra kola í september fyrir þremur árum.
Alfreð segir að nú í vikunni hefði verið hafist handa við lagfæringar á kirkjugarðinum umhverfis kirkjuna en þar eru ærin verkefni fyrir höndum. „Það eru víða sár í garðinum sem þarf að laga og gleðilegt að sú vinna er hafin,“ segir hann. Og nefnir að fyrirtækið BM Vallá hafi gefið hellur og grjót sem nýtt verði í nýja stétt heim að kirkjunni og vegg umhverfis hana.
Rafmagn var lagt í kirkjuna á liðnu sumri og nú er beðið eftir því að smíðavinna hefjist innanhús þar sem fjölmörgum verkefnum er ólokið, að flota gólfið, ganga frá altari og ýmislegt fleira. Alfreð segir að fjárveiting hafi borist frá Alþingi svo fyrirséð er að hægt verði að klára kirkjubygginguna.
Þetta hefst á endanum
„Það er allt klárt og peningar fyrir hendi til að klára, en á þessari stundu er ekki ljóst hvenær við náum því. Einu sinni stóð til að halda jólamessu í nýrri Miðgarðakirkju nú um komandi jól en ég þori ekki að fullyrða hvort við náum því,“ segir Alfreð og bætir við að margt sé eftir óunnið og þau verkefni sem eftir eru verði unnið þegar færi gefist. „Við gerum þetta bara á okkar hraða og eftir því sem við fáum mannskap til að vinna, nú erum við að bíða eftir að komi til okkar smiður og það eru allir rólegir. Þetta hefst á endanum,“ segir Alfreð og er ánægður með að verið sé að vinna við lagfæringar á kirkjugarði.
Alfreð Garðarsson við kirkjuna
Athugasemdir