Kassagítarpönk úr Æskulýðshreyfingunni sem guð gleymdi
Dúettinn Down & Out sendi fyrir nokkru eða í október árið 2021 frá sér breiðskífuna Þættir af einkennilegum mönnum. Útgáfunni fögnuðu þeir með tvennum tónleikum, annarsvegar í Leikhúsinu í Kópavogi en hins vegar á Gamla Bauk á Húsavík í síðustu viku.
Húsavík er fæðingarheimili hljómsveitarinnar, en hana skipa þeir Ármann Guðmundsson og Þorgeir Tryggvason. Down & Out var framarlega í flokki í gróskumiklu tónlistarlífi bæjarins í kringum 1990 og þá urðu flest lögin til. Seinna þróaðist hljómsveitin út í tríóið (og enn seinna nonettinn) Ljótu hálfvitana, en það er önnur saga. Tónlistinni hefur verið lýst sem illskiljanlegum bræðingi af þjóðlagatónlist, proggi og pönki. Mætti kannski kalla hana sirkuspönk eða jafnvel eins og Spilverk þjóðanna á ærlegu sveppatrippi. Sjálfir kalla þeir félagar hana wonk, sem enginn veit hvað þýðir fyrr en viðkomandi heyrir í Down & Out. Vikublaðið ræddi við Ármann í tilefni að þessum tímamótum en viðtalið birtist í Vikublaðinu í síðustu viku.
Geymdust vel í salti
„Við erum gömul hljómsveit sem varð til á Húsavík 1987 en þá sömdum við ægilega mikið af lögum í þeirri samsuðu af pönki og nýbylgju og tilraunasendu sem var í gangi á þeim tíma,“ segir Ármann í samtali við Vikublaðið. „Þessi lög lágu svo í salti í ansi langan tíma þar til við vorum allt í einu komnir í níu manna hljómsveit sem heitir Ljótu hálfvitarnir en dúettinn Down & Out mallaði alltaf undir,“ segir Ármann og bætir við að eitthvað af þessum lögum hafi reyndar ratað á lagalista Ljótu hálfvitanna.
„Fyrir nokkrum árum ákváðum við að fara með þessi gömlu lög okkar í stúdíó og athuga hvað væri hægt að gera og það endaði með þessari plötu; Þættir af einkennilegum mönnum,“ segir Ármann en auk þess að vera aðgengileg á streymisveitum var platan gefin út á vínyl og kasettum. „Svo létum við brenna þetta á nokkra geisladiska fyrir sérvitringana sem enn þá hlusta á það format,“ bætir Ármann við glettinn.
Eins og skrattinn úr pönksenunni
Á þessum árum í kringum 1990 var mikil gróska í pönksenunni á Húsavík með tíðum tónleikahöldum í Samkomuhúsinu. Down & Out voru fastir liðir á þessum tónleikum þó dúettinn hafi vissulega skorið sig all verulega úr miðað við tónlistarstefnu annarra sveita senunnar.
„Þetta er eitísband í grunnin, ekki kannski alveg í tíðarandanum s.s. frekar en við félagarnir vorum almennt. Svo stofnuðum við ásamt fleirum Æskulýðshreyfinguna sem guð gleymdi, ásamt fleiri ungum mönnum á Húsavík, Rotþróarmönnum og fleirum. Þá byrjuðum við að standa í þessu tónleikahaldi og fórum að halda þessa árlegu tónleika í Samkomuhúsinu um fimm ára skeið ásamt fleirum,“ útskýrir Ármann um tilurð dúettsins. „Þetta var bara vinahópurinn okkar sem stóð fyrir þessu og það urðu margar hljómsveitir til í kringum þessa senu. Hljómsveitirnar Rotþróin og Down & Out voru svona þetta langlífastar af þessu en svo voru fleiri goðsagnakenndar hljómsveitir sem komu upp úr þessum suðupotti eins Geimharður og Helena, Hommar gormar og hippar í handbremsu og fleira gott,“ segir Ármann og blaðamaður finnur nostalgíuna hellast yfir sig, enda tíður gestur á tónleikum í Samkomuhúsinu á þessum tíma.
Húsavíkurbíó geymdi nafnið
Ármann segir að dúettinn hafi eiginlega orðið til af sjálfu sér eftir að þungarokkshljómsveit sem þeir voru í hafði lagt upp laupana þegar þeir voru 15 ára. „Við settumst bara niður með kassagítar og sömdum nokkur lög sem voru undarleg og textarnir oft svolítið absúrd en við vorum þá nýhættir í þungarokkshljómsveitinni Lúsífer. Svo var sýnd í bíóinu á Húsavík myndin Down and Out in Beverly Hills. Okkur fannst það hljóma eins og titill á tónlistarmyndbandi með Down & Out sem væri að spila í Beverly Hills. Þaðan kemur nafnið á dúettinn. Lögin af plötunni eru flest frá þessum tíma en við tókum upp fjórar kasettur bara á kasettutæki. Eina þeirra gáfum við svo formlega út og þaðan eru flest lögin á plötunni. Svo er eitt á plötunni sem er nýrra,“ útskýrir Ármann.
Titill plötunnar; „Þættir af einkennilegum mönnum“ segir Ármann að komi til vegna þess að lögin eru mörg hver sögur af skrítnu fólki. Þar á meðal er titillag plötunnar. „Þar bregður fyrir nafnkunnum og ákaflega einkennilegum mönnum. Það eru þeir Grettir Ásmundsson, Jónas Hallgrímsson og Jón Arason,“ segir Ármann.
Adele varð til þess að útgáfunni seinkaði
Eins og fyrr segir kom platan út á streymisveitum í október 2021 og því má velta fyrir sér hvers vegna verið sé að halda útgáfutónleika tæpum tveimur árum síðar. En það má vitanlega rekja til covid-faraldursins sem þá setti mark sitt á nær allt sem hönd á festi en einnig hafði enska poppstjarnan Adele töluverð áhrif á framvinduna.
„Já, covid var alltaf að koma og fara þannig að við kláruðum aldrei að loka þessu. Svo var alltaf planið að halda útgáfutónleika þegar við værum komnir með vínylinn í hendurnar en þá kom á daginn að það varð vínylskortur í heiminum. Adele tók upp á því að gefa út plötuna sína á vínyl í 500 þúsund eintökum. Hún ásamt fleirum kláruðu einfaldlega allt hráefnið í þetta,“ segir Ármann og hlær.
„Við þurftum að bíða í heilt ár eftir því að fá vínylinn í hendurnar, fengum hann bara í lok síðasta veturs. Svo höfum við bara verið að finna heppilegan tíma undir þetta en það er einmitt núna.“
Dúett varð að 9 manna hljómsveit
Þó Dúettinn Down & Out eigi sér traustan aðdáendahóp þá eru eflaust fleiri sem kannast við aðra húsvíka hljómsveit sem þeir Þorgeir og Ármann skipa ásamt sjö félögum sínum en hún heitir Ljótu hálfvitarnir. Færri vita þó að stórsveit sú má rekja uppruna sinn til kassagítardúettsins sem varð til árið 1987.
„Já þetta þróaðist út í tríóið Ljótu hálfvitarnir þegar við bættum félaga okkar, Sævari Sigurgeirssyni við. Við kynntumst honum í menntaskóla en hann er mikill textahöfundur og svo var hann líka farinn að semja lög sem okkur leist svo andskoti vel á og vildum gera eitthvað með. Svo fannst mér þeir svo helvíti latir félagarnir, þeir nenntu aldrei að gera neitt. Þannig að ég stofnaði annað band með hinum meðlimunum í núverandi Ljótu hálfvitunum og fékk nafnið Rip Rap og Garfunkel. Svo kom upp sú hugmynd að þessar hljómsveitir spiluðu saman á tónleikum, þ.e. tríóið Ljótu hálfvitarnir hituðum upp fyrir Rip Rap og Garfunkel. Í kjölfarið á því komu hugmyndir um að sameina böndin og við héldum nafni Ljótu hálfvitanna sem hefur verið starfandi með stuttum hléum heilt síðan,“ segir Ármann að lokum.