Ekkert ferðaveður á Mývatnsöræfum
Lögreglan á Norðurlandi eystra segir á Facebooksíðu embættisins frá illviðri á Mývatnsöræfum og er færslan svohljóðandi:
,,Lögreglunni á Norðurlandi Eystra voru að berast upplýsingar um mjög slæmt verður á Mývatnsöræfum. Sandstormur og ofsarok. Malbik er að flettast af veginum vestan við Jökulsá á Fjöllum við Grímsstaði.
Ökumenn hafa leitað vars með bíla sína á aðeins skjólsælli stöðum. Lögreglumenn sem fóru um svæðið fyrir skammri stundu óskuðu þess að vegfarendur yrðu upplýstir með þessar aðstæður ef nokkur kostur væri.
Vegagerðin er einnig að setja inn viðvörun um hættulegar aðstæður á veginum vegna veðurs, á sinn vef í þessum töluðu orðum. Látið endilega vini og kunningja vita ef þið vitið af ferðum fólks þarna efra.
Bíðið af ykkur veðrið og fylgist með veðurspá og færð.”
Ætti að lægja með kvöldinu, svo best er að doka.