„Þetta var gott fyrir sálina“
Kvennalið Þórs/KA valtaði í kvöld yfir Grindavík og er því áfram á toppi Pepsi deildarinnar með fullt hús stiga. Þessar stelpur eru hreinlega óstöðvandi.
Akureyrarliðið var ekki lengi úr startholunum og komst yfir með marki frá Stephany Mayor eftir 11 mínútur. Á 15. Mínútu bætti Sandra María Jessen við öðru marki og staðan orðin 2-0. Það var svo á 42. mínútu, að Sandra María skoraði aftur með fínu skoti og kom heimakonum í 3:0 og þannig var staðan í hálfleik.
Heimakonur réðu áfram lögum og lofum í seinni hálfleik þó leikurin róaðist aðeins. Það var loks á 85. mínútu að Sandra María Jessen skoraði með skalla eftir hornspyrnu og fullkomnaði þar með þrennu sína. Rétt fyrir leikslok skoraði Linda Eshun hjá Grindavík sjálfsmark, staðan orðin 5-0 og urðu það lokatölur í kvöld. „Þetta var rosalega gaman og mikilvægt fyrir sjálfstraustið að byrja vel eftir landsleikjapásuna. Þetta var gott fyrir sálina,“ sagði Sandra María í viðtali við ÞórTv að leik loknum.
Þór/KA er því enn með fullt hús stiga eftir 8 umferðir og fátt virðist geta stöðvað liðið nú þegar mótið er að verða hálfnað en 18 umferðir eru leiknar í deildinni. Næsti leikur er strax á þriðjudag klukkan 18:00 gegn FH á Kaplakrikavelli.