Markalaust í bragðdaufum leik

Srdjan Rajkovic, markvörður KA var valinn maður leiksins. Mynd: Þórir Tr/KA.is
Srdjan Rajkovic, markvörður KA var valinn maður leiksins. Mynd: Þórir Tr/KA.is

KA og ÍA mættust í 7. umferð Pepsídeildar karla í kvöld. Fyrirfram var búist við markaleik enda hafa bæði lið verið iðin við markaskorun í sumar. Það varð þó ekki raunin að þessu sinni og lauk leiknum með markalausu jafntefli

KA stillti fram óbreyttu byrjunarliði frá sigrinum á Víkingum í Ólafsvík í síðustu umferð. KA réði lögum og lofum í fyrri hálfleik. Besta marktækifæri fyrri hálfleiksins átti Almarr Ormarsson þegar að hann átti hörku skot að marki ÍA eftir hornspyrnu frá Hallgrími Mar Steingrímssyni en gestirnir björguðu á línu. KA fékk fjölmargar hornspyrnur í fyrri hálfleik og upp úr þeim komu nokkur ágæt færi en inn vildi boltinn ekki. Fyrri hálfleikur var heilt yfir frekar bragðdaufur.

Það verður seint sagt að liðin hafi vaðið í færum í seinni hálfleik. Callum Williams komst næst því að skora á 62. mínútu þegar að hann skallaði boltann í slá eftir hornspyrnu frá Hallgrími Mar. Elfar Árni átti einnig góðan skalla eftir fyrirgjöf frá Darko á 80. mínútu leiksins en Ingvar Þór Kale var vel á verði í marki ÍA.

KA menn virtust reyna hvað þeir gátu undir lokin að landa sigri en það var eins og það vantaði smá auka kraft í heimaliðið til að klára leikinn. Lokatölur 0-0.

KA-maður leiksins var valinn Srdjan Rajkovic, markvörður en hann átti nokkrar mikilvægar vörslur.

Næsti leikur KA er á sunnudaginn þegar að liðið fer á Hlíðarenda og keppir við topplið Vals. Leikurinn hefst kl. 17.00. 


Athugasemdir

Nýjast