Kvennahlaup ÍSÍ - Hlaupið frá Hofi á Akureyri
Þá er komið að hinu árlega Kvennahlaupi ÍSÍ sem fram fer um allt land á sunnudag. Á Akureyri hefst hlaupið klukkan 14:00 og er hlaupið frá Menningarhúsinu Hofi. Þetta er árlegur viðburður þar sem konur á öllum aldri koma saman og njóta þess að hreyfa sig og skemmta sér saman en fyrsta Kvennahlaupið var haldið í júní árið 1990 í tengslum við Íþróttahátíð ÍSÍ.
Markmið Sjóvá Kvennahlaupsins frá upphafi er að vekja áhuga kvenna á reglulegri hreyfingu. Hver kona tekur þátt á sínum forsendum. Því er engin tímataka í Kvennahlaupinu og lögð er áhersla á að hver kona komi í mark á sínum hraða og með bros á vör. Á Akureyri er boðið upp á vegalengdirnar 2 km. og 5 km. Þátttakendur fá frítt í sund að hlaupi loknu.
Á Dalvík er boðið upp á 2,2 km. hlaup frá sundlaug Dalvíkur klukkan 11:00 og frítt er í sund fyrir þátttakendur á eftir.
Í Eyjafjarðarsveit verður hlaupið frá Íþróttamiðstöð Eyjafjarðarsveitar klukkan 11:00. Þar verður boðið upp á 2,5 km. og 5 km. vegalengdir. Þar er einnig frítt í sund eftir hlaupið.