Biðlar til stuðningsmanna að greiða fyrir streymi
Vikublaðiðið ræddi við Jónas Halldór Friðriksson, framkvæmdastjóra Völsungs um sóttvarnir vegna heimaleikja félagsins. Hertar aðgerðir stjórnvalda í sóttvörnum hafa kallað á fordæmalausar aðstæður til knattspyrnuiðkunar en Jónas segir hefur ágætlega gengið að fara eftir fyrirmælum sóttvarnalæknis. „Þetta hefur gengið fínt og við fengum klapp á bakið frá KSÍ eftir síðasta heimaleik. En þetta er alls ekki einfalt og þetta hefur aukin kostnað og tekjumissi í för með sér,“ segir Jónas en áhorfendabann er nú í gildi.
„Við þurftum að horfast í augu við að það voru 13 heimaleikir eftir þegar áhorfendabannið var sett á þannig að það er á bilinu 2,5 – 3 milljónir sem við erum að missa þar í tekjur.“
Þá segir Jónas að ferðalög á leiki þurfi að fara fram á ákveðinn hátt sem ekki er hægt að verða við nema með auknum kostnaði. „Við erum komin í það að leikmenn þurfa að mæta til leiks með grímur og liðin þurfa helst að mæta á sitt hvorum tímanum á völlinn. Við þurfum að vera með sóttvarnafulltrúa með þekkingu á sóttvarnatilmælum sem stjórnar aðgerðum. Allir gæslumenn og boltasækjar þurfa að vera með hanska, grímur og vesti. Þannig að umfangið er allt mun meira,“ útskýrir Jónas.
Græni herinn, stuðningsmannaklúbbur Völsungs hefur staðið vaktina á öllum heimaleikjum og taka upp og streyma leikjunum. Þeir munu halda uppteknum hætti áfram.
Í dag tekur Völsungur á móti Njarðvíkingum á Vodafone-vellinum á Húsavík, Græni herinn mun streyma beint frá leiknum á youtube-rás sinni. Jónas vildi því koma því á framfæri að áhorfendur geti því áfram horft á alla heimaleiki og biðlaði til þeirra um að styrkja félagið sitt með því að borga sig inn á leikina með því að leggja inn á reikning félagsins.
Leikdagur / heimaleikur!
Athugasemdir