Fréttir

Anna María með brons í Króatíu

Góð frammistaða Akureyringa var á Evrópumeistaramótinu í bogfimi í Króatíu í síðustu viku.

Lesa meira

Framtíðin felst í nálægðinni

Á fimmtudaginn kemur býður Háskólinn á Akureyri, í samvinnu við námsráðgjafa grunnskóla Akureyrarbæjar, grunnskólanemum að heimsækja skólann á Starfamessu og kynnast þar fyrirtækjum á svæðinu

Lesa meira

Vélfag opnar fimmtu starfsstöðina

Vélfag heldur áfram að stækka og opnar fimmtu starfsstöðina á Íslandi sem er staðsett við Njarðarnes 3-7 á Akureyri, þar sem Trésmiðjan Börkur var áður til húsa. Verksmiðjan sem er 2541,5 fm á stærð mun hýsa framleiðslu, lager og samsetningu auk skrifstofur.  

Lesa meira

Húðvaktin er ný fjarlækningaþjónusta í húðlækningum

Húðvaktin er fjarlækningaþjónusta sem opnaði þann 3. janúar síðastliðinn og er fyrsta þjónusta sinnar tegundar á Íslandi. Húðvaktin býður fólki sem þarf á aðstoð sérfræðings í húðlækningum að halda að fara inn á hudvaktin.is og skrá þar beiðni til læknis. Fyrir beiðnina þarf tvær myndir og lýsingu á þeim húðeinkennum sem eru til staðar, en því næst er beiðnin send til afgreiðslu hjá sérfræðingi í húðlækningum. Innan 48 klukkustunda svarar húðlæknir og setur upp meðferðarplan sem eftir atvikum getur m.a. falið í sér lyfjameðferð, frekari rannsóknir á stofu eða tíma á skurðstofu.

Lesa meira

Hafdís Íslandsmeistari í Rafhjólreiðum 2024

Um helgina fór fram fyrsta Íslandsmótið í Rafhjólreiðum þar sem keppendur hjóluðu á  ,,trainerum” sem eru þannig búnir að þeir lesa hversu mörg vött hjólreiðamaðurinn framkallar með því að snúa sveifunum á hjólum sínum og skila því svo yfir í tölvuleikinn zwift sem notar það svo ásamt skráðri þyngd til að ákvarða hraðann sem keppandinn er á í leiknum.

Margir af bestu hjólurum landsins voru því sestir á keppnishjólin sín fyrir framan tölvuskjái á laugardagsmorguninn til að taka vel á því.

Lesa meira

Fjárfestingafélagið Kaldbakur ehf. hefur gengið frá kaupum á öllu hlutafé í Optimar

Fjárfestingafélagið Kaldbakur ehf. hefur gengið frá kaupum á öllu hlutafé í hátæknifyrirtækinu Optimar International AS (Optimar) af þýska eignarhaldsfélaginu Franz Haniel & Cie. GmbH (Haniel). Optimar er leiðandi á heimsvísu í þróun og framleiðslu á sjálfvirkum fiskvinnslukerfum til notkunar um borð í fiskiskipum, á landi og í fiskeldi.

Lesa meira

Lokaorðið - Fyrr en misst hefur.

Stundum þegar ég stend undir heitri sturtu eða hækka í ofnunum hugsa ég um hvað myndi gerast ef heita vatnið sem kemur úr iðrum jarðar gengur til þurrðar. „Láttu ekki ljósin loga né vatnið renna að óþörfu. Notaðu ekki meira en þú þarft.“ Þetta lífsstef foreldra minna hefur oft komið upp í hugann undanfarið. Þau lifðu byltinguna úr myrkri og kulda torfkofanna yfir í ljós og hita nútímans.

Á heimili mínu er til húsgang sem var smíðað árið 1917 og heitir servantur. Servantur er lítill skápur sem hafði að geyma vaskafat, tveggja lítra könnu fyrir vatn, sápustykki, lítið handklæði og þvottapoka. Servantur var inni í köldum herbergjum fólks og var bað- og snyrtiaðstaða þess tíma og langt fram á síðustu öld. Í dag er sjálfsagt að hafa tvö baðherbergi í húsum auk heitra potta í húsagörðum, upphituð bílastæði og raflýsingar allt um kring. En lífið er ekki sjálfsagt og lífsgæðin ekki heldur. Allt er í heiminum hverfult og getur snúist án fyrirvara. Það höfum við séð gerast á Suðurnesjum síðustu mánuði.

Við erum vanmáttug því náttúran er að hefja nýtt skeið sem við gleymdum að reikna með og enginn veit hvað framtíðin mun færa. En þó vanmáttug séum getum við þó gert eitt, sama hvar á landinu við búum. Við getum ígrundað hvernig við notum orkugjafana okkar því þeir eru hvorki sjálfgefnir né óþrjótandi. Við getum gengið betur um orku náttúrunnar, því enginn veit hvað átt hefur - fyrr en misst hefur.

Lesa meira

89 brautskráðust frá Háskólnum á Akureyri

Vetrarbrautskráningarathöfn fór fram í Háskólanum á Akureyri í annað sinn nú um liðna helgi. Athöfnin var ætluð kandídötum sem fengu brautskráningarskírteini sín í október 2023 og þeim sem brautskráðust 17. febrúar síðastliðinn. Alls brautskráðust 89 kandídatar af tveimur fræðasviðum í október og febrúar. Af þeim brautskráðust 19 kandídatar frá Háskólasetri Vestfjarða og er þeim boðið á hátíðlega athöfn á Hrafnseyri þann 17. júní 2024.

Í ræðu sinni fjallaði Elín Díanna Gunnarsdóttir, aðstoðarrektor Háskólans á Akureyri, meðal annars um eflingu og vöxt háskólans. „Til gamans má geta að stúdentum HA hefur fjölgað um rúm 60% á undanförnum áratug. Við höfum frá upphafi lagt áherslu á að hér ríki persónulegt og sterkt námssamfélag. Ég vona að það sé einmitt ykkar upplifun af háskólagöngu ykkar hér. Samfélagið og sú umgjörð sem það skapar breytist hratt og í dag er staðreyndin sú að stúdentar halda ansi mörgum boltum á lofti, með fjölbreyttar áskoranir og áreiti úr öllum áttum.“

Lesa meira

Allskonar fólk, jafnrétti og vöfflur með rjóma

„Það sem stóð upp úr varðandi Jafnréttisdaga í ár var hve einstaklega fræðandi þeir voru. Það var mikilvægt að beina kastljósinu að málefnum fólks af erlendum uppruna og naut ég þess mjög að heyra bæði sjónarhorn stjórnmálafólks af erlendum uppruna á rafræna opnunarviðburðinum og sjónarhorn kvenna af erlendum uppruna á málþingi um jaðarsetningu í HA. Kynning Kristínar Hebu á stöðu fatlaðra var sláandi og vona ég að unnið verði með niðurstöður skýrslu hennar til að bæta stöðu þeirra. Ég held að við höfum öll lært eitthvað nýtt á Jafnréttisdögum sem við getum tekið með okkur inn í árið.“ segir Sæunn Gísladóttir, fulltrúi HA í stýrihóp Jafnréttisdaga, um hvað henni fannst standa upp úr núna í ár.

Árlega standa allir háskólar landsins fyrir Jafnréttisdögum og hafa þeir verið haldnir frá árinu 2009. Þema ársins 2024 var inngilding, jaðarsetning og aðför að mannréttindum. Í HA voru haldnir fjórir viðburðir í tengslum við dagana sem voru bæði vel sóttir og mörg sem nýttu sér að horfa á þá í streymi. Efni fyrirlestra var jaðarsetning fólks af erlendum uppruna, ADHD í námi og daglegu lífi og staða fólks með örorkumat, endurhæfingarlífeyri og örorkustyrk. Hægt er að finna upptökur á Facebooksíðu Jafnréttisdaga og frekari upplýsingar um Jafnréttisdaga á nýrri vefsíðu.Jafnréttisdaga á nýrri vefsíðu.

Berglind Hólm Ragnarsdóttir, lektor við félagsvísindadeild og formaður jafnréttisráðs HA, segir að í allri baráttu fyrir jafnrétti sé mikilvægt að búa til vettvang fyrir fólk sem upplifir mismunun og jaðarsetningu í samfélaginu til að segja frá þeirra reynslu. „Á Jafnréttisdögum er lagt upp úr því að hafa fjölbreytta viðburði þar sem vakin er athygli á málefnum ólíkra hópa, bæði út frá niðurstöðum rannsókna frá sérfræðingum á sviðinu en einnig út frá sjónarhorni einstaklinganna sjálfra. Mér finnst þetta hafa tekist nokkuð vel í ár þökk sé öllu fólkinu sem gaf tíma sinn til þess að taka þátt í þessu með okkur,“ bætir hún við.

Skipulagning og framkvæmd daganna gekk vel samkvæmt Sæunni en ásamt henni í stýrihóp eru tveir jafnréttisfulltrúar frá Háskóla Íslands og verkefnisstjóri Jafnréttisdaga. „Við skipulögðum heildarumgjörðina og sameiginlegu viðburði háskóla landsins, svo sem rafrænu opnunina og viðburðinn Orð og ímyndir stríðs. Við verkefnalistann í ár bættist ný vefsíða Jafnréttisdaga sem við hlutum styrk fyrir í samstarfssjóði háskólanna á vegum háskólaráðuneytisins. Það var mjög gleðilegt að fá í fyrsta sinn vefsíðu undir dagana og geta miðlað betur upplýsingum um þá þar. Það var sérstaklega ánægjulegt hve góðir og fjölbreyttir viðburðirnir voru í HA og ég er afar þakklát þátttakendum sem komu og gáfu tímann sinn, meðlimum Jafnréttisráðs sem stóðu fyrir vöfflukaffi fyrir tæplega 80 manns, nemendum og starfsfólki, sem sóttu viðburðina af miklum áhuga á Akureyri,“ segir Sæunn að lokum.

Við óskum öllum til lukku með vel heppnaða Jafnréttisdaga og hvetjum öll til að fylgjast með áframhaldandi vinnu á nýju vefsvæði Jafnréttisdaga.

Lesa meira

Settu upp tölvustofu í ABC skóla í Burkina Faso

„Ferðin gekk vel í alla staði, markmiðið var vel skilgreint og við náðum að gera það sem við ætluðum okkur,“ segir Adam Ásgeir Óskarsson sem kom i byrjun vikunnar heim eftir ferð til Afríkuríkisins Burkina Faso.

Þar setti hann ásamt ferðafélögum upp tölvustofu í Ecole ABC de Bobo sem er ABC skóli rekin í næst stærstu borg landsins, Bobo Dioulasso. Tölvunum hafði Adam safnað á Íslandi á liðnu ári, um 100 borðtölvum sem skipt var út í Verkmenntaskólanum á Akureyri fyrir fartölvur og þá fékk hann einnig tölvur, skjávarpa og fleira frá Sýn, Vodafone, Menntaskólanum í Tröllaskaga , Origo Lausnum, Sjúkrahúsinu á Akureyri, Gaflara og Tengi.

Lesa meira

Mikil umferð um Akureyrarflugvöll í morgun

Í morgun komu fyrstu farþegarnir í gegnum nýju viðbygginguna þegar Transavia og easyJet lentu á Akureyrarflugvelli. Samtals voru komufarþegarnir 311 manns og brottfararfarþegarnir 340 manns.

Icelandair var einnig með sína áætlun á sama tíma og því fóru 767 farþegar um flugstöðina í morgun og gekk allt eins og í sögu.

Lesa meira

Stór stund á Akureyrarflugvelli á morgun

Frá því er sagt á Facebooksíðu Akureyrarflugvallar  í kvöld að í fyrramálið verði í fysta sinn notuð nýja viðbyggingin við flugstöðina  þegar farþegar Transavia og easyJet muni víga hluta af þeirri glæsilegu aðstöðu sem verið sé að klára. 

Mikið hefur gengið á í þessari viku og margir lagt sín lóð á vogarskálarnar til þess að þetta verði gerlegt, en segja má að  með þessu sé fyrsta áfanga verksins  lokið.

,,Í júlí lýkur áfanga tvö í stækkun flugstöðvarinnar þegar nýr innritunarsalur verður tekinn í notkun en þá mun allt millilandaflug fara í gegnum viðbygginguna" segir orðrétt í frétt á áður nefndri Facebooksíðu.

Því má bæta við að í desember n.k verða 70 ár liðin frá þvi að Akureyrarflugvöllur var tekinn í notkun og því vel við hæfi að hressa uppá þennan farsæla flugvöll.

Lesa meira

Dagsektir vegna umgengni við Hamragerði teknar upp í næstu viku

„Þrátt fyrir að um augljósa innsláttarvillu væri að ræða ákvað heilbrigðisnefnd, í samráði við lögfræðinga Akureyrarbæjar að taka málið upp aftur. Ekki síst í ljósi þess að álagning og innheimta dagsekta er verulega íþyngjandi aðgerð og því afar mikilvægt að rétt að henni staðið af hálfu stjórnsýslunnar,“ segir Leifur Þorkelsson framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands.

Lesa meira

Tvær nýjar sýningar á Listasafni – Sköpun bernskunnar 2024 og Samspil

Á morgun laugardaginn 24. febrúar kl. 15 verða samsýningarnar Sköpun bernskunnar 2024 og Samspil opnaðar í Listasafninu á Akureyri. Þetta er ellefta sýningin undir heitinu Sköpun bernskunnar. Hún er sett upp sem hluti af safnfræðslu, með það markmið að gera sýnilegt og örva skapandi starf barna á aldrinum fimm til sextán ára. Þátttakendur hverju sinni eru skólabörn og starfandi myndlistarmenn. Unnin eru verk sem falla að þema sýningarinnar, sem að þessu sinni er hringir.

Myndlistarmennirnir sem boðin var þátttaka í ár eru Gunnar Kr. Jónasson og Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir. Skólarnir sem taka þátt að þessu sinni eru leikskólinn Naustatjörn og grunnskólarnir Glerárskóli og Naustaskóli, sem og Minjasafnið á Akureyri / Leikfangahúsið.

Leikskólabörnin komu í Listasafnið í nóvember síðastliðnum og unnu sín verk undir stjórn beggja fræðslufulltrúa safnsins. Myndmenntakennarar þeirra grunnskóla sem taka þátt stýra vinnu sinna nemenda, sem unnin er sérstaklega fyrir sýninguna. Sýningarstjóri: Heiða Björk Vilhjálmsdóttir.

Listamenn bjóða ungmennum af erlendum uppruna í listrænt samtal

Sýningin Samspil er afrakstur þess að bjóða ungmennum af erlendum uppruna að sækja listvinnustofu í Listasafninu á Akureyri. Í vinnustofunni fengu þau innblástur úr völdum verkum úr safneigninni og unnu eigin verk undir handleiðslu starfandi listamanna. Í ferlinu fengu þátttakendur tækifæri til að efla þekkingu sína, tjá sig í gegnum listina á eigin forsendum og koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Þeir kynntust jafnframt listsköpunarferlinu frá upphafi til enda; frá því að hugmynd fæddist og þar til afraksturinn var settur upp á sýningu. Listamennirnir Brák Jónsdóttir og Þórir Hermann Óskarsson stjórnuðu vinnunni með áherslu á sköpun og sjálfstæði.

Með verkefni sem þessu vill Listasafnið ná til breiðari hóps safngesta og hvetja ungmenni af erlendum uppruna og fjölskyldur þeirra til virkrar þátttöku í menningarstarfi. Tryggja þarf aðgengi að menningu fyrir alla þjóðfélagshópa, því fjölbreytni í menningarlífi styrkir samfélagið. Verkefnið er unnið í samstarfi við Velferðarsvið Akureyrarbæjar og styrkt af Barnamenningarsjóði Íslands. Verkefnisstjóri er Heiða Björk Vilhjálmsdóttir.

 

Lesa meira

Nordic Office of Architecture hlýtur fyrstu verðlaun í samkeppni um nýja stúdentagarða á Akureyri

Í gær var tilkynnt að  arkitektastofan Nordic Office of Architecture  hlyti fyrstu verðlaun  í samkeppni um hönnun á nýjum stúdentagörðum fyrir Félagsstofnun stúdenta Akureyri (FÉSTA). Samkeppnin var auglýst 16. október 2023 og var unnin í samstarfi við Arkitektafélag Íslands. Skilafrestur tillagna var til 25. janúar sl. og bárust ellefu tillögur. 

,,Búsetuþarfir stúdenta við HA hafa verið að breytast á síðustu árum og hefur framboð húsnæðis hjá Félagsstofnun Stúdenta Akureyri (FÉSTA) ekki náð að fylgja eftir þeirri þróun. Eftirspurnin hefur mest verið eftir minni íbúðum s.s. stúdíó íbúðum, 2ja herbergja íbúðum og einstaklingsherbergjum. Á grundvelli könnunar og greiningarvinnu FÉSTA var niðurstaðan sú að þörf væri á að FÉSTA myndi auka framboð sitt á minna húsnæði og húsnæði sem uppfyllti nútíma kröfur" en svo segir á heimasíðu FÉSETA  

Lesa meira

Fundu myglu stjórnsýsluhúsinu á Húsavík

Í vikunni var tilkynnt um nýjan og skemmri opnunartíma stjórnsýsluhússins á Húsavík en móttaka í húsinu verður opin virka daga milli kl. 10:00 - 14:00 nema á föstudögum, þá er opið milli 10:00 - 13:00.

Lesa meira

Götuhornið - Sveitastrákur á mölinni

Það eru takmörk fyrir því hvað maður getur skipt bújörðum í marga hluta og engin leið er fyrir alla sveitastráka að ætla sér að verða bændur.  Pabbi varð því að ákveða hvor okkar bræðranna tæki við búinu af honum. Það er reyndar svo lítið að það er rétt á mörkunum að það dugi til að framfleyta fjölskyldu.  Pabbi ákvað að yngri bróðir minn tæki við jörðinni, byggingum og búsmala.  Hann væri bæði dælli í skapi en ég en við það bættist að ég væri svo rolulegur og riðvaxinn að það væri ekki líklegt að ég gæti framfleytt mér af vinnu.  Það væri því heppilegast að ég reyndi að fá starf á skrifstofu hjá hinu opinbera þar sem ég þyrfti ekki að óttast erfiði eða annríki. Ég er ekki viss um hvort ég á að vera móðgaður eða ánægður með þetta.

Lesa meira

Leikdómur - Geðveik sýning

Freyvangsleikhúsið frumsýndi 16.febrúar,Gaukhreiðrið eftir samnefndri bók Ken Kensey og leikgerð Dale Wasserman í þýðingu Karls Ágústs Úlfssonar.
Leikstjóri: Gunnar Björn Guðmundsson. 

Það var mikil eftirvænting í loftinu þegar ég fór ásamt móður minni í leikhús sl föstudagskvöld. Þokan lá þétt í firðinum og varla hægt að sjá og finna leikhúsið fyrir henni. Þegar inn var komið, tók við troðfullur salur af fólki  og eftirvæntingin lá í loftinu enda frumsýning.

Lesa meira

Nýr þáttur í hlaðvarpi Heilsu- og sálfræðiþjónustunnar

Ari Tuckman er bandarískur sálfræðingur og kynlífsfræðingur sem hefur sérhæft sig í ADHD. Hann hefur skrifað bækur um ADHD og ferðast víðsvegar um heiminn til þess að koma fram á ráðstefnum. Við vorum í sambandi við hann og fengum að heyra skoðanir hans á hinum ýmsu málefnum sem tengjast ADHD.

Í nýjasta þætti heilsaogsal.is hlaðvarp fræðir Ari hlustendur um ADHD og kynlíf, áskoranir sem hann sér að pör glíma gjarnan við þegar annar aðilinn í sambandinu er með ADHD og kemur með góð ráð fyrir pör. Öll áhugasöm um ADHD eru hvött til þess að hlusta.

Lesa meira

SAk -Nýbygging rís líklega við SAk í lok árs 2028

Undirbúningur að hönnun og byggingu nýbyggingar við Sjúkrahúsið Akureyri er á fleygiferð. Verkefnið felur í sér hönnun á um 9.200 m2 nýbyggingu ásamt lóðarhönnun og aðkomu að deiliskipulagsbreytingu.

 

 

 
Lesa meira

And Björk, of course eftir Þorvald Þorsteinsson frumsýnt á dánardegi höfundarins

And Björk, of course, eftir Þorvald Þorsteinsson, er í senn sprenghlægilegt, óviðeigandi og óþægilegt. Leikstjóri verksins er Gréta Kristín Ómarsdóttir en leikarar eru Jón Gnarr, Sverrir Þór Sverrisson, Eygló Hilmarsdóttir, Urður Bergsdóttir, Davíð Þór Katrínarson, María Pálsdóttir og María Heba Þorkelsdóttir.

Lesa meira

Olís með áform um þjónustustöð við Sjafnargötu

Hagar ehf. hafa sent inn fyrirspurn varðandi fyrirhugaða þjónustustöð Olís við Sjafnargötu 2 á Akureyri. Snýst fyrirspurnin um hvort lúguverslun og aðrein að henni rúmist innan gildandi skipulags lóðarinnar.

Lesa meira

Útboð á framkvæmdum við byggingu stúku og félagsaðstöðu á íþróttasvæði KA á Akureyri

Umhverfis- og mannvirkjasvið Akureyrarbæjar óskar eftir tilboðum í byggingu stúku og félagsaðstöðu á íþróttasvæði KA. Verktíminn er í það heila allt að fjögur ár.

Jarðvegsskiptum á framkvæmdasvæðinu er lokið og reiknað er með því að framkvæmdir geti hafist nú í vor. Um er að ræða annars vegar félagsaðstöðu á tveimur hæðum sem reist verði úr forsteyptum einingum og hins vegar hefðbundna staðsteypta stúkubyggingu á þremur hæðum með stálgrindar þaki.

Birt flatarmál mannvirkjanna er 2.722 m2.

Útboðsgögn verða afhent rafrænt á útboðsvef Akureyrarbæjar frá og með deginum í dag, skiilafrestur er  réttur mánuður.  

Lesa meira

Frábær árangur DSA - Listdansskóla Akureyrar í undankeppni Dance World Cup

Þær gerðu það sannarlega gott stelpurnar  frá  DSA - Listdansskóla Akureyrar  sem tóku þátt í undankeppni heimsmeistaramótsins Dance World Cup sem fram fór í Borgarleikhúsinu s.l.  mánudag.  

Stelpurnar gerðu sér lítið fyrir og sigruðu með glæsibrag í flokknum söngur og dans með 85 stigum! Þar að auki komu þær heim með fjögur silfur og eitt brons. Yngsti keppandinn var aðeins 6 ára og fór heim með hvorki meira né minna en þrjú verðlaun. 

 Heimsmeistaramótið verður haldið í Prag í sumar, og hafa öll atriði DSA unnið sér inn keppnisrétt. Þetta er í fimmta sinn sem DSA - Listdansskóli Akureyrar tekur þátt í Dance World Cup en þar koma saman rúmlega 100.000 börn frá 50 löndum. 

 

Lesa meira

Græn skref á Amtbókasafninu

Grænum skrefum SSNE er sífellt að fjölga og Amtsbókasafnið á Akureyri tók við viðurkenningu fyrir að hafa stigið sitt fyrsta græna skref af fimm í síðustu viku.

Starfsfólk Amtsbókasafnsins hefur verið einstaklega framtakssamt í þessari vinnu og hefur meðal annars ákveðið verklag til að draga úr orkunotkun innan vinnustaðarins og tryggt skýra flokkun úrgangs á bókasafninu. Þau halda einnig úti frískáp þar sem hver sem er má skilja eftir matvæli og taka matvæli. Mikið magn af mat hefur farið í gegnum frískápinn í hverri viku og hann hefur lagt sitt af mörkum til að draga úr umhverfisáhrifum matarsóunar.

Amtsbókasafnið hefur verið öflugur bakhjarl hringrásarhagkerfisins á fleiri sviðum, meðal annars með fjölbreyttum skiptimörkuðum fyrir allt frá íþróttafatnaði til borðspila.

Lesa meira

Húsavík - Kalla eftir viðbrögðum stjórnvalda strax – flugsamgöngur í verulegri hættu

Komi ekki til kraftaverk verður áætlunarflugi til Húsavíkur hætt um næstu mánaðamót á vegum Flugfélagsins Ernis. Það sem af er vetri hefur flugfélagið fengið tímabundinn ríkisstyrk með fluginu til Húsavíkur sem klárast um næstu mánaðamót. Full ástæða er til að hafa miklar áhyggjur af stöðunni. Forsvarsmenn Framsýnar hafa verið í sambandi við stjórnendur flugfélagsins, sveitastjórnarmenn stjórnvöld og þingmenn Norðausturkjördæmis með það að markmiði að mynda breiðfylkingu um áframhaldandi flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Ekki þarf að fara mörgum orðum yfir mikilvægi þess fyrir Þingeyinga og alla þá sem treysta þurfa á öruggar flugsamgöngur milli landshluta að fluginu verði viðhaldið.

Framsýn hefur þegar komið áhyggjum sínum á framfæri við þingmenn kjördæmisins og forsvarsmenn ríkistjórnarinnar með meðfylgjandi bréfi:  

Ágætu þingmenn

Flugfélagið Ernir hóf að fljúga til Húsavíkur í apríl 2012. Þá höfðu flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur legið niðri í tæp 12 ár. Frá þeim tíma hafa forsvarsmenn flugfélagsins átt mjög gott samstarf við heimamenn um flugið enda mikilvæg samgönguæð milli landshluta.

Forsvarsmenn fyrirtækja, sveitarfélaga, stéttarfélaga, ríkisstofnana, sem og íbúar hafa kallað eftir öruggum flugsamgöngum inn á svæðið.

Hvað ákall heimamanna varðar um viðunandi samgöngur, hefur Framsýn stéttarfélag nánast frá upphafi komið að því að styrkja flugleiðina Reykjavík-Húsavík með magnkaupum á flugmiðum fyrir sína félagsmenn, sem eru rúmlega þrjú þúsund, auk þess sem félagið hefur komið að markaðssetningu flugfélagsins hvað varðar áætlunarflug til Húsavíkur.

Markmið Framsýnar hefur verið að tryggja flugsamgöngur inn á svæðið og tryggja um leið flugfargjöld á viðráðanlegu verði fyrir félagsmenn, sem margir hverjir hafa lítið á milli handanna. Almennt má segja að mikil ánægja hafi verið meðal félagsmanna Framsýnar og íbúa í Þingeyjarsýslum með frumkvæði félagsins að stuðla að því að tryggja flugsamgöngur í góðu samstarfi við aðra hagsmunaaðila. Vissulega hefur gefið á móti, en fram að þessu hafa menn komist klakklaust í gegnum brimskaflana hvað áætlunarflugið varðar.

Eins og þingmönnum er vel kunnugt um hefur rekstrargrundvöllur fyrir innanlandsflugi ekki verið upp á marga fiska og því hefur ríkið þurft að koma að því að ríkisstyrkja nokkrar flugleiðir með útboðum eða með sértækum aðgerðum, s.s. til Vestmannaeyja og Húsavíkur. Styrkurinn til Húsavíkur kom til á síðasta ári þegar núverandi eigendur Flugfélagsins Ernis gáfu út að þeir væru að gefast upp á flugi til Húsavíkur nema til kæmi ríkisstuðningur á flugleiðinni, líkt og væri með annað áætlunarflug til smærri staða á Íslandi. Í kjölfarið kom Vegagerðin að því tímabundið að styrkja flugleiðina.

Nú er svo komið að áætlunarflugi til Húsavíkur verður hætt um næstu mánaðamót fáist ekki frekari stuðningur frá ríkinu. Undirritaður fh. Framsýnar hefur fundað með forsvarsmönnum flugfélagsins síðustu daga, þar sem þetta hefur verið staðfest. Fari svo að fluginu verði hætt, sem flest virðist því miður benda til, er um að ræða gríðarlegt reiðarslag fyrir Þingeyinga og alla þá aðra sem eiga erindi inn á svæðið.

Höfum í huga að fjölmargir þurfa að reiða sig á flugið fyrir utan svokallaða hagsmunaaðila sem nefndir eru hér að ofan, það er allur sá fjöldi sem þarf af heilsufarsástæðum að leita lækninga og sérfræðiþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og treystir á öruggar flugsamgöngur um Húsavíkurflugvöll. Svo ekki sé talað um útgjöldin sem munu stóraukast, ekki síst hjá efnalitlu fólki, hætti áætlunarflugið um mánaðamótin.

Á fundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar fimmtudaginn 15. febrúar var formanni félagsins falið að skrifa þingmönnum kjördæmisins bréf þar sem kallað verði eftir stuðningi þeirra við að tryggja áframhaldandi áætlunarflug til Húsavíkur. Þess er vænst að þingmenn svari ákalli Þingeyinga og gangi til liðs við heimamenn í þessu mikilvæga í atvinnu- og  byggðamáli.

Fulltrúar Framsýnar eru reiðubúnir að funda með þingmönnum og/eða veita þeim frekari upplýsingar verði eftir því leitað enda mikilvægt að þingmenn séu vel upplýstir um málið.

Húsavík 16. febrúar 2024

Virðingarfyllst

Fh. Framsýnar stéttarfélags

Aðalsteinn Árni Baldursson formaður

Lesa meira

Formaður Félags eldri borgara - Vonbrigði en við skoðum aðra möguleika

„Það eru vissulega mikil vonbrigði að Búfesti hafi neyðst til að skila lóðunum við Þursaholt. Við erum að fara yfir þá möguleika sem fyrir hendi eru eftir að ljóst er að þetta verkefni dettur upp fyrir,“ segir Karl Erlendsson formaður Félags eldri borgara á Akureyri.

Búfesti hefur skilað inn lóðum við Þursaholt 2 til 4 í nýju Holtahverfi norður, m.a. vegna nýrra lánaskilmála sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafði sett og voru þess eðlis að bróðurpartur félagsmanna féll ekki undir þau tekju- og eignamörk sem sett voru. Á lóðunum átti að reisa nokkur fjölbýli og voru tvö þeirra eyrnamerkt fólki eldra en 60 ára.

Karl segir að mikil þörf sé fyrir húsnæði fyrir þennan aldurshóp og fari síst minnkandi. „Það vantar sárlega góðar íbúðir sem henta þessum aldurshóp, við finnum vel fyrir því að eftirspurn þessa hóps eftir íbúðum er talsverður,“ segir hann.

Gera húsnæðiskönnun í næsta mánuði

Nú í marsmánuði verður gerð húsnæðikönnun meðal félagsmanna og þeir inntir eftir því hvers konar húsnæði henti þeim best þegar efri árin færist yfir. Segir Karl það mismunandi hvað henti hverjum og einum, sumir vilji kaupa, aðrir kaupa búseturétt eða leiga íbúð. Síðasti kosturinn segir hann að mörgum hugnist vel og nefnir að til sé Leigufélag aldraðra í Reykjavík þar sem fólki gefst kostur á að leiga íbúðir en búa jafnframt við öryggi sem ekki er til staðar á almennum leigumarkaði.

„Við leggjum þessa könnun fyrir okkar félagsmenn og þá sjáum við hvar skóinn kreppir, hvað þeir vilja og hvar þörfin er mest,“ segir Karl.

Lesa meira