Hjalti Páll Þórarinsson verkefnastjóri flugklasans Air 66N hjá Markaðsskrifstofu Norðurlands mætti á fund bæjarráðs í gær og fór yfir stöðuna á horfum í millilandaflugi til og frá Akureyri. Samþykkt var áskorun á ríkisstjórnina til að ýta á eftir að tillögur um stofnun Markaðsþróunarsjóðs og Áfangastaðasjóðs verði komið í framkvæmd. Áskorunin hljóðar svo:
„Bæjarráð skorar á ríkisstjórn Íslands að hrinda nú þegar í framkvæmd tillögum forsætisráðherra, sem samþykktar voru í ríkisstjórn í byrjun nóvember, um stofnun Markaðsþróunarsjóðs og Áfangastaðasjóðs. Markmið tillögunnar er að koma á reglulegu millilandaflugi um aðra flugvelli en Keflavík og ljóst að töf á framkvæmd málsins stendur í vegi fyrir að komið verði á reglulegu millilandaflugi til annarra gátta en Keflavíkur.“
Dagskráin heyrði í Guðmundi Baldvini Guðmundssyni formanni bæjarráðs: „Við erum að þrýsta á yfirvöld, því þetta hefur áhrif á alla markaðssetningu fyrir okkur. Við erum bara að ýta á að menn klári þetta mál,“ sagði Guðmundur. EPE