Ýsu- og þorskbollur og heimalagaðar kjötbollur

Jóhanna Júlíusdóttir hjúkrunarfræðingur leggur til uppskriftir í fyrsta matarkrók á nýju ári en hún tók áskorun Bergljótar Jónasdóttur frá því fyrir jól. Jóhanna segir að eftir jólahátíð hafi fólk gott af því að borða fisk, sem sé bæði  hollur og góður.

  "Hér eru uppskriftir af fiskibollum sem mér finnst aldrei klikka. Hérna áður fyrr þegar ég var að búa til fiskibollur slumpaði ég svona þessu og hinu eins og móðir mín sagði mér að hún gerði. Oft voru bollurnar fínar og góðar en stundum brást það og ég áttaði mig aldrei hvað olli því. Eftir að ég fór að styðjast, alla vega að mestu við þessar uppskriftir bregðast þær sjaldan. Mér finnst gott að gera stóra uppskrift í einu þar sem svolítið umstang er við bollugerðina. En það er alveg frábært að eiga þær í frystikistunni og börnum finnast þær mjög góðar," segir Jóhanna.

Ýsubollur

2. kg. ýsuhakk

2 ½ msk. salt

1 ltr. mjólk ( má vera rúmlega það)

150 gr. kartöflumjöl

60 gr. hveiti

1 egg, 1-2  hakkaðir laukar  ( má sleppa), pipar.

Þorskbollur

2. kg. þorskur

2 ½ msk. salt

1. ltr. mjólk

200 gr. kartöflumjöl

100 gr. hveiti

1 egg, hakkaður laukur, pipar.

Mér hefur reynst best að hræra þetta vel og lengi í hrærivél. Steikt upp úr olíu á pönnu og soðið í ca. 15. mín. Gott er að hafa brúna sósu, gott salat og kartöflur með.

Ég læt líka fylgja með uppskrift af heimalöguðum kjötbollum.

Kjötbollur

500 gr. nautahakk

2-3 formbrauðsneiðar

rúmlega ½ dl. mjólk

1 egg

1 laukur hakkaður eða brytjaður smátt

pipar, salt og það krydd sem ykkur finnst passa.

Brauðið er bleytt í mjólkinni, síðan er öllu hinu bætt út í og hrært vel. Gott að láta þetta bíða smástund fyrir steikingu. Að lokum eru mótaðar bollur og steikt í olíu. Soðið í nokkrar mínútur. Ég set þetta gjarnan í eldfast mót með smá vatni í og steiki bollurnar í ofninum. Bý síðan til sósu úr soðinu og bragðbæti. Með þessu passar vel að hafa karöflumús og gott hrásalat. En það er um að gera að láta hugmyndaflugið ráða og mörgum finnst gott að hafa súrsæta-sósu með svona bollum og þá er bara einfalt að kaupa hana tilbúna í krukku.

Jóhanna skorar á  Aðalheiði Guðjónsdóttur, leikskólakennara á Naustatjörn að koma með uppskriftir í næsta matarkrók og segir að hún kunni ýmislegt fyrir sér í eldhúsinu.

Nýjast