Ýsa með kryddjurtahjúp og bakaðar plómur

Þá er komið að því að karlmaður leggi til uppskriftir í matarkrókinn. Ögmundur Knútsson forstöðumaður Rannsókna- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri tók áskorun Huldu Rafnsdóttur í síðustu viku og er mættur hér með girnilega rétti.

Ýsa með kryddjurtahjúp

(fyrir 6)

1 msk extra virgin ólífuolía

3 flök af ýsu - skorin í hæfilega bita

2 lúkur af kirsuberjatómötum

3 msk mayones

2 hvítlaukslauf marin

100 g brauðrasp

Safi úr hálfri sítrónu ásamt rifnum berki

2 lúkur af saxaðri steinselju

Hitið ofninn í 220°C. Berið olíu á stóra ofnskúffu. Setjið flökin í bakkann með roðhliðina niður. Blandið saman í lítilli skál mayonesi og hvítlauk og berið á fiskbitana. Í annarri skál er blandað saman brauðraspi, sítrónusafa, sítrónuberki og steinselju. Saltið og piprið eftir smekk. Setjið blönduna ofan á fiskbitana. Setjið tómatana í bakkann milli fiskbitanna og setjið yfir smá af ólífuolíu. Bakið í 15 mínútur í ofni.

Berið fram með ristuðum kartöflubátum og/eða góðu salati.
Til tilbreytingar má setja ½ tsk af karrý í stað hvítlauks og bera fram með hrísgrjónum.

Ristaðir kartöflubátar

(fyrir 6)

600 g kartöflur skornar í báta

Ólífuolía, salt og pipar

Smyrjið eldfast mót með olíu og dreifið kartöflubátunum í mótið. Setjið slurk af ólífuolíu yfir kartöflurnar, saltið og piprið. Bakað í ofni við 180-200°C í ca 45 mínútur.

Bakaðar Amaretti plómur með Mascarpone rjóma

(fyrir 6)

40 g Amaretti kökur

6 stórar plómur

40 g smjör

30 g strásykur

3 msk Amaretto líkjör

Mascarpone rjómi

200 ml rjómi

250 g Mascarpone ostur (stofuhiti á ostinum)

2 msk flórsykur

1 tsk vanilludropar

Stillið ofninn á 200°C . Myljið amaretto kökurnar. Skerið plómur í helminga og takið úr steininn. Setjið plómurnar á ofnskúffu eða bakka með skurðarsárið upp. Setjið muldu amaretti kökurnar yfir plómurnar. Setjið smjörbita á hverja plómu og stráið sykrinum yfir. Að síðustu er Amaretto líkjörinn settur yfir hverja plómu. Bakið í 15 mínútur eða þar til vökvinn þykkist og fer að breytast í karamellu. Hellið þá 80 ml af heitu vatni í eldfasta mótið og bakið áfram í um 15 mínútur eða þar til toppurinn verður gylltur (farinn að harðna örlítið) og plómurnar mjúkar.
Þeytið varlega saman saman rjómann, marscarpone ostinn (passið að hafa ostinn við stofuhita), flórsykurinn og vanilludropana.
Berið plómurnar fram með marscarpone rjómanum og hellið safanum úr mótinu yfir hvern framborinn disk.

Ögmundur skorar á Gunnar Svanbergsson sjúkraþjálfara að mæta í næsta matarkrók en Ögmundur segir að Gunnar sé öðlingskokkur og mikill matgæðingur.

Nýjast