Framkvæmdastjóri Ásprents Stíls ehf á Akureyri sendi í morgun frá sér yfirlýsingu vegna auglýsingar í Dagskránni.
"Í Dagskránni miðvikudaginn 12. mars sl. birtist hálfsíðu auglýsing þar sem birtar voru myndir af fjórum einstaklingum sem bjóða sig fram til sætis á framboðslista Framsóknarflokksins á Akureyri. Í auglýsingunni var texti sem mælti með frambjóðendunum í tiltekin sæti á listanum. Þessi auglýsing var samin og birt á ábyrgð einstaklings og hefði hann með réttu átt að birta nafn sitt undir auglýsingunni.
Við vinnslu auglýsingarinnar kom skýrt fram að frambjóðendurnir hefðu veitt heimild til þessarar birtingar og notkunar á myndunum. Þær upplýsingar komu frá Hjörleifi Hallgríms. Eftir að Dagskráin fór í dreifingu kom í ljós að þetta var ekki rétt. Auglýsingin var birt án samráðs og samþykkis frambjóðenda og raunar í óþökk þeirra.
Starfsfólk Dagskrárinnar á ekki öðru að venjast en að viðskiptavinir komi fram af heiðarleika og við vinnslu á auglýsingum í gegnum tíðina hefur ekki þótt ástæða til sannreyna þær upplýsingar sem þeir hafa lagt fram. Í þessu tilfelli brást aðili því trausti og hörmum við mjög að hafa ekki áttað okkur á því áður en blaðið fór í prentun. Þetta mál er einsdæmi í sögu Dagskrárinnar.
Fyrir hönd útgefanda Dagskrárinnar vil ég biðja kjörstjórn Framsóknarflokksins og frambjóðendurna fjóra afsökunar á birtingu auglýsingarinnar og vona að þessar upplýsingar leiði til þess að hún hafi engin áhrif á framgöngu þeirra, eða annarra frambjóðenda, á kjörfundinum nk. laugardag."
G.Ómar Pétursson, framkvæmdastjóri Ásprents Stíls ehf.