Kristján frá Gilhaga er afkastamikið skáld. Hann birtir hér ljóð sem ort er í tilefni komu vorsins.
Vormorgunn við Pollinn
Dulúðug kyrrðin draumblíð ríkir.
Dagmál. Ó þvílík stund.
Geislaflóð líkt sem gullhár meyju
greiðist um fjall og lund.
Rís upp af nætur djúpum dvala
daggperlu sindri skreytt,
landið mitt. Og á andartaki
er andrúmið rakt og heitt.
Hóglátur blær um loftið líður.
Lognaldan fjörustein,
faðmar af mýkt og mildi sinni
mókir æður þar ein.
Utar, frá landi úar bliki
ástfanginn kveður brag
til hennar, með þrá um að vonirnar verði
að veruleika í dag.
Allt hafa leyst úr vetrar viðjum
vordægra sterku tök,
laufblað sem teygar ljóssins hlýju
landgolan nærir rök.
Langt uppi í Heiði lækur glaður
leggur af stað og hlær
við hríslunni, sem við bakkann bíður
bíður hans síðan í gær.
Utan með landinu lónar bleikja,
í langferða kunnum sveim,
með æskuminningu úr ánni fremra,
er á leiðinni heim.
Allt fær hér stefnt til iðju sinnar
með athafnasemi gnótt,
og endurnýjuðu þreki og þori.
Þökk sé þér liðna nótt.
Kristján frá Gilhaga