Við unnum góðan sigur í gær og erum virkilega stolt af því. Því er hins vegar ekki að leyna að það eru vonbrigði að fá ekki tækifæri til viðræðna um meirihlutasamstarf, segir Gunnar Gíslason oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Flokkurinn fékk flest atkvæði í sveitarstjórnarkosningunum í gær, alls 2.222 eða 24,8%. Flokkurinn fær þrjá menn kjörna og bætir við sig tveimur bæjarfulltrúum.
Þrátt fyrir það er Sjálfstæðisflokkurinn úti í kuldanum í meirihlutaviðræðum.
L-listinn, Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn fengu allir tvo menn kjörna. L-listinn tapar fjórum bæjarfulltrúum en flokkurinn fékk hreinan meirihluta fyrir fjórum árum eða sex bæjarfulltrúa. Sameinað framboð L-listans og Bæjarlistans hafði sjö fulltrúa í bæjarstjórn, en hefur nú aðeins tvo.
L-listinn leiðir meirihlutasamstarf sem flokkurinn áætlar að mynda með Samfylkingunni og Framsókn.
Ég hefði talið eðlilegt að þeir flokkar sem unnu sigur í þessum kosningum hefðu rætt saman fyrst. Það er hálf skrýtið að sjá lista sem hafði 7 menn og tapar 5 mönnum og er hafnað í kosningum, taka þátt í viðræðum eins og landið liggur núna, segir Gunnar.
En af hverju er horft framhjá Sjálfstæðisflokknum?
Ég get ekki lesið hugsanir manna, en ein skýring sem ég hef er að gagnrýni okkar í kosningabaráttunni á miðbæjarskipulagið hafi haft áhrif á afstöðu flokkanna til meirihlutasamstarfs við okkur.