Vonast til að ná 400 íbúa markinu í Svalbarðsströnd

Fyrri umræða um fjárhagsáætlun Svalbarðsstrandahrepps fór fram á fundi í byrjun vikunnar og er að sögn Árna Bjarnasonar sveitarstjóra stefnt að því að síðari umræða fari fram í desember.  Á fundinum var rætt um álagningu gjalda næsta árs og samþykkt að álagningarprósenta útsvars verði óbreytt 13,28% sem er hámarks álagning. Ákvörðunum vegna annarra gjalda var vísað til næsta fundar.  

Árni segir að miklir fyrirvarar séu í þeirri áætlun sem lögð var fram til fyrri umræðu, en menn hefðu verið að reyna að átta sig á hvaða sveiganleika þeir hefðu fyrir komandi ár. „Við leggjum okkar áætlun upp þannig að hún skili afgangi, það verður eflaust erfitt en ég vona að það markmið náist," segir Árni.  Gert er ráð fyrir samdrætti í tekjum frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, „við búumst eins við að sá tekjusamdráttur nemi 10%," segir Árni. 

Á móti kemur að vonast er til að útsvarið skilið meiri tekjum en áður, vænta menn þess að íbúum í sveitarfélaginu fjölgi á milli ára. Þeir voru alls 396 á liðnu ári, 1. desember, „en við erum að vona að nú náum við 400 íbúa markinu og það yrði þá í fyrsta sinn sem það gerist," segir Árni.  Almennt um fjárhagsáæltun sveitarfélagsins sagði hann að ekki væri annað hægt í því árferði sem nú ríkti en að sníða sér stakk eftir vexti.

Nýjast