„Vonandi verður heimurinn einhvern tíma líkari sjálfum sér“

Samsett mynd
Samsett mynd

Meirihluti starfsfólks í kísilveri PCC á Bakka var í dag tilkynnt um uppsögn eða 80 af 130 starfs­mönn­um. Stjórn fyrirtækisins hefur ákveðið að hætta framleiðslu á kísilmálmi tímabundið vegna áhrifa Kór­ónu­veirufar­ald­sins á hrávöruverð á heimsmarkaði eins og greint hefur verið frá.

Aðalsteinn J. Halldórsson,eftirlits- og þjónustufulltrúi Framsýnar stéttarfélags var viðstaddur fundinn þegar starfsfólki var tilkynnt um uppsagnirnar. Hann sagði í samtali við Vikublaðið að starfsfólki hafi eðlilega verið brugðið. „Þetta er auðvitað rosalegt kjaftshögg en það þýðir ekkert nema vona það besta og vonandi verður heimurinn einhvern tíma líkari sjálfum sér,“ sagði Aðalsteinn  og bætti við að reiknað sé með að flestum verði boðin endurráðning þegar framleiðsla hefst á ný þegar markaðir glæðast.

Meirihluti starfsfólks er með erlent ríkisfang en aðspurður segir Aðalsteinn að flestir eða allir sem sagt hefur verið upp hafi öðlast fullan rétt til atvinnuleysisbóta. „Til þess að öðlast fullan rétt til bóta þarf viðkomandi að hafa unnið á landinu í 12 mánuði eða lengur,“ segir hann. Aðalsteinn ítrekar að starfsfólkið eigi sinn uppsagnarfrest sem og sumarfrí.


Athugasemdir

Nýjast