Vísindaskóli unga fólksins fær góðar viðtökur

Háskólinn á Akureyri býður börnum á aldrinum 11-13 ára í fyrsta sinn upp á vikulanga skólavist í júní, þar sem unga fólkið fær að kynnast ýmsum greinum sem kenndar eru við skólann. Í tilkynningu frá HA segir að viðbrögðin við skólanum hafi farið fram úr björtustu vonum. Alls eru 85 börn skráð í skólann og hefur verið lokað fyrir skráningar. Þeir sem ekki komust að geta bókað sig að ári en ætlunin er að gera þetta að árlegum viðburði.

„Afar ánægjulegt er að segja frá því að jöfn aðsókn kynja er að skólanum en skráðir eru 45 drengir og 40 stúlkur. Flest ungmennin koma frá Akureyri og nágrenni en einnig eru dæmi um að nemendur komi lengra að. Fjölmörg fyrirtæki og félög hafa lagt verkefninu lið með ýmsu móti. Þessi stuðningur er ómetanlegur að sögn Sigrúnar Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra Vísindaskólans og án hans hefði verkefnið ekki orðið að veruleika.

Hugmyndin að skólanum kemur erlendis frá en fjölmargir háskólar í Evrópu bjóða börnum upp á nám í svipuðu formi og Háskólinn á Akureyri gerir nú í fyrsta sinn. Við uppbyggingu námsins er lögð áhersla á að kynna nemendunum sem flestar námsbrautir háskólans, á lifandi og áhugaverðan hátt. Með þessu vill skólinn opna augu nemenda fyrir því fjölbreytta námi sem er í boði á háskólastigi í heimabyggð, auk þess að tengja skólann betur við nærsamfélagið,“ segir í tilkynningu. Skólinn verður settur mánudaginn 22. júní og lýkur 26. júní.

Nýjast