Vísindaskóli fyrir ungt fólk

Sigrún Stefánsdóttir.
Sigrún Stefánsdóttir.

Háskólinn á Akureyri stefnir að því í júní á næsta ári að hleypa af stokkunum svokölluðum Vísindaskóla fyrir börn á aldrinum 11 til 13 ára. Markmiðið með skólanum er bæði að auka framboð á uppbyggilegum tilboðum fyrir börn þegar að formlegu skólastarfi lýkur á vorin og einnig að kynna háskólann fyrir ungu fólki á svæðinu. Kennsla í skólanum mun vera í höndum kennara HA sem og nemenda á lokastigi náms.

Þemu tengd námsframboði

Hugmyndina að stofnun Vísindaskólans á Sigrún Stefánsdóttir forseti hug- og félagsvísindasviðs HA.  Þegar Sigrún tók við starfinu haustið 2013 þótti henni miður hversu lítið fór fram á háskólasvæðinu yfir sumartímann. Þá rifjaðist upp fyrir henni háskóli unga fólksins á vegum HÍ sem að barnabörn hennar höfðu sótt sumarið áður. Í kjölfarið fór Sigrún að kanna möguleikann á því að koma upp samskonar skóla hér fyrir norðan.  Í ljós kom að fjölmargir háskólar í Evrópu bjóða upp á samskonar nám fyrir ungt fólk en þeir líta á það sem ákveðna samfélagsþjónustu að bjóða börnum inn í skólann og kynna þá fyrir háskólanámi.

Hópur starfsmanna HA hefur undanfarið unnið að þróun Vísindaskólans og ákveðið var að byggja hann upp á öðruvísi hátt en hjá HÍ. Í stað þess að láta nemendur skrá sig í ákveðin fög sem hafa fjöldatakmarkanir munu allir nemendur skólans leggja stund á fimm þemu sem tengjast námsframboði HA. Þar verður nemendum boðið upp á að fræðast um náttúruna með útikennslu þar sem tekin verða sýni og þau skoðuð með víðsjá.  Þeir munu læra um fjölmiðlaheiminn og einn dagur verður helgaður hreyfingu og heilsu. Einnig munu nemendurnir fá innsýn inn í sjávarútvegsfræði, bókmenntir og kynjafræði.

Fyrsti styrkurinn kominn í hús

KEA veitti fyrsta styrkinn fyrir verkefnið 27. nóvember síðastliðinn en Sigrún segist hafa fengið mjög jákvæð viðbrögð frá ýmsum aðilum og að fólk átti sig á mikilvægi skólans. Með þessu fái krakkarnir tækifæri til þess að kynnast starfsemi háskólans í sinni eigin heimabyggð og þannig þurfi þeir ekki að fara til Reykjavíkur til þess að fræðast um háskólastarfið.

-IBG

 

Nýjast