Undir samninginn skrifuðu fyrir hönd VÍS þau Auður B. Guðmundsdóttir og Helgi Jóhannesson og María Sigurðardóttir, leikhússtjóri fyrir hönd LA. Auður sagði við þetta tækifæri að það væri mikið ánægjuefni fyrir VÍS að taka þátt í þróttmiklu starfi LA og geta með þessu stuðlað að enn fjölbreyttara starfi leikfélagsins um ókomna framtíð. María Sigurðardóttir leikhússtjóri þakkaði Auði og Helga stuðninginn og lagði áherslu á hversu mikilvægt það væri fyrir áframhaldandi farsælt starf LA að eiga slíkan bakhjarl sem VÍS væri. Öflugt samstarf LA við Máttarstólpa leikhússins væri hvatning til frekari dáða og með innkomu þeirra til viðbótar við stuðning hins opinbera hefði leikfélagið möguleika á að vaxa enn frekar. Markmið LA væri að gleðja og hreyfa við gestum sínum með vönduðum leiksýningum og fjölbreyttu starfi.