Virkni bauð lægst í löggustöð og fangelsi

Fjögur tilboð bárust í framkvæmdir við núverandi lögreglustöð og fangelsi á Akureyri en tilboðin voru opnuð hjá Ríkiskaupum nú fyrir stundu. Lægsta tilboðið átti Virkni ehf., rúmar 175 milljónir króna, og var það eina tilboðið sem var undir kostnaðaráætlun, sem hljóðaði upp á rúmar 177,6 milljónir króna. Verkinu skal að fullu lokið fyrir 1. júní 2008. ÞJ verktakar buðu um 178,3 milljónir króna, Fjölnir ehf. bauð um 191,5 milljónir króna og PA byggingarverktakar ehf. buðu rétt tæpar 200 milljónir króna. Um er að ræða endurbætur og viðbyggingu við núverandi húsnæði. Byggð verður viðbygging til austurs út frá núverandi fangelsisbyggingu. Viðbyggingin verður með sama yfirbragði og núverandi hús. Að sunnan og austan verður hún ein hæð á hálfniðurgröfnum kjallara en að norðan verður hún tvær hæðir. Byggingin verður steinsteypt, einangruð að innan á hefðbundinn hátt með plasteinangrun og múrhúð á rappneti. Stærð viðbyggingar er 336 m² og endurgerð á núverandi byggingu er 567m².

Nýjast