Vinsæll ítalskur pastaréttur og pizza

Þórdís Þórólfsdóttir tók áskorun Súsönnu Hammer og svarar henni með uppskrift að pastarétti og pizzu. "Eva Dís dóttir mín lærði að elda pastaréttinn þegar hún var skiptinemi á Ítalíu og hann er mjög vinsæll hjá fjölskyldunni. Hins vegar er það pizza sem seint verður tilnefnd til hollustuverðlauna en hún er góð. Í uppskriftunum er mikið um ca. og u.þ.b. og fyrir því er góð og gild ástæða. Það hafa aldrei verið til neinar formlegar uppskriftir að þessum réttum, það er bara notað það sem til er hverju sinni, ef lítið er til af einu er bara notað meira af öðru og svo framvegis," segir Þórdís.

Pastaréttur

Tagliatelle pasta ca 400 g

Pepperone ca 100 g

Skinka niðurskorin ca 200 g

Egg 5 stk.

Ostur rifinn ca. 150 g

Salt

Svartur pipar

Múskat

Pastað er soðið skv. leiðbeiningum á pakka. Vatninu hellt af, pastað sett aftur í pottinn og jafnvel hitað aftur ef þarf (pastað verður að vera vel heitt þegar eggjablandan er sett útí)

Eggin pískuð, skinka, pepperone, ostur og krydd sett útí. Blöndunni er síðan hellt útá heitt pastað og hrært í. Gott með snittubrauði og fersku salati. Uppskriftin er fyrir 4-5.

Pizza

Botn:

7½ tsk. þurrger

3 msk. matarolía

4½ dl heitt vatn

12 dl hveiti

1½ tsk. salt

Þurrefnum blandað vel saman, olíu og vatni bætt útí og hnoðað. Deigið látið lyfta sér, þá hnoðað aftur og flatt út á vel smurða ofnplötu. Deigið passar á heila plötu og botninn er vel þykkur.

Ofan á:

Nautahakk u.þ.b. 700 g

Franskar 700 - 1000 g

Bearnaise sósa 2-3 bréf

Salt

Svartur pipar

Rifinn ostur

Hakkið er brúnað og kryddað með salti og pipar. Frönsku kartöflurnar eru forbakaðar við 200° C í 20 mín. Sósan er löguð skv. leiðbeiningum. Þunnu lagi af sósu er smurt yfir botninn, þá er hakkið sett á og franskar þar yfir. Restinni af sósunni er hellt yfir og síðast rifnum osti stráð yfir allt saman. Bakað í u.þ.b. 30 mín í 200° C heitum ofni.

Þórdís skorar á Herdísi Ström að leggja til uppskriftir í matarkrók að viku liðinni en Herdís sér um matseldina á leikskólanum Síðuseli á Akureyri.

Nýjast