Vinna tillögu um gjaldtöku á bílastæðum í miðbænum

Unnið er að því að hefja gjaldtöku á bílastæðum í miðbænum. Mynd/Hörður Geirsson.
Unnið er að því að hefja gjaldtöku á bílastæðum í miðbænum. Mynd/Hörður Geirsson.

Skipulagsráð Akureyrarbæjar tekur jákvætt í hugmyndir um gjaldtöku á bílastæðum í miðbæ Akureyrar og hefur falið sviðsstjóra skipulagssviðs að vinna áfram að málinu og gera tillögu að áætlun um innleiðingu í samráði við umhverfis- og mannvirkjasvið. Fjallað var um mögulega gjaldtöku á fundi skipulagsráðs í síðustu viku.

Eins og greint var frá í síðasta blaði hafa bæjaryfirvöld verið að skoða þann möguleika frá sl. hausti að breyta bílastæðamálum í miðbæ Akureyrar og að taka upp gjaldskyldu í stað klukkustæðis. Frá árinu 2005 hefur klukkustæði verið við lýði. Meðal ástæða fyrir áætluðum breytingum er fjölgun erlendra ferðamanna sem margir hverjir skilja klukkustæðin illa. Einnig hafi fólk ítrekað breytt klukkunni til að vera lengur í stæðinu.

„Ekkert annað en auka skattur á íbúa“

Skiptar skoðanir eru um ágæti þess að byrja að rukka fyrir bílastæði. Þannig bókaði Helgi Sveinbjörn Jóhannsson áheyrnarfulltrúi M-listas á fundi skipulagsráðs að hann telji að það að auka álögur á íbúa bæjarins sé óásættanlegt. „Gjaldtaka á bílastæðum í miðbæ Akureyrar er ekkert annað en auka skattur á íbúa,“ segir í bókun Helga.

Nýjast