Villi Páls heiðraður af Landsbjörgu

Vilhjálmur Pálsson var heiðraður í dag. Myndir/Aðsendar
Vilhjálmur Pálsson var heiðraður í dag. Myndir/Aðsendar

Björgunarsveitin Garðar var stofnuð árið 1959 í kjölfar sjóslyss þegar Maí TH194 fórst með tveimur mönnum. Þá var hávær umræða í samfélaginu um öryggismál sjómanna. Formaður Kvennadeildar Slysavarnarfélagsins á Húsavík, Jóhanna Aðalsteinsdóttir eða Jóhanna í Grafarbakka kom að máli við Vilhjálm Pálsson eftir þennan atburð og ræddi við hann um utanumhald og rekstur á fluglínutækjum til sjóbjörgunar. Úr varð að Villi Páls kvaddi til fundar átján einstaklinga sem stofnuðu félagsskapinn og úr varð björgunarsveitin Garðar. Starfsemi sveitarinnar hefur æ síðan verið lykilþáttur í öryggi borgaranna og veitt aðstoð þegar vá ber að höndum.

Á aðalfundi björgunarsveitarinnar var Villa Páls veitt heiðursviðurkenning Slysavarnarfélagsins Landsbjargar fyrir störf sín í þágu björgunarstarfa og slysavarna. Villi Páls var fyrsti formaður sveitarinnar og veitti henni forystu í 22 ár. Hann hefur komið að björgun og stjórnun stórra og smára aðgerða eins og þegar Hvassafellið strandaði við Flatey, eldgosin í Mývatnssveit og Kópaskerskjálftinn reið yfir svo dæmi séu tekin. Villi Páls var umdæmisstjóri Slysavarnarfélags Íslands á Norðurlandi í áratug á sínum tíma og stjórnaði bæði æfingum og aðgerðum á vegum þess.

Villi Páls er fyrsti einstakingurinn sem hlýtur þessa heiðursnafnbót hjá björgunarsveitinni Garðari. Hann er rúmlega níræður og mætti galvaskur á aðalfund sveitarinnar eins og hann var vanur að gera. Hann flutti smá tölu að þessu tilefni og fór yfir söguna þegar sveitin var stofnuð, mikilvægi starfseminnar og hvatti til fræðslu og eflingar sveitarinnar. Fjölskylda Villa var viðstödd og risu félagar sveitarinnar úr sætum og klöppuðu duglega fyrir Villa og framlagi hans til málaflokksins. Við óskum Villa Páls og fjölskyldu hans til hamingju með heiðursnafnbótina.

Hjálmar Bogi Hafliðason

Villi Páls


Athugasemdir

Nýjast